Junior Grand Prix 2019 : Lake Placid
Þá er lokið þátttöku Íslands í fyrri keppninni sem landið fær úthlutað að þessu sinni. Aldís Kara Bergsdóttir var okkar keppandi í Lake Placid í Bandaríkjunum og hefur eytt þar megninu af vikunni í æfingar og keppni. Töluvert er að venjast staðsetningu þessa móts en Lake Placid bær er í 550m hæð yfir sjávarmáli sem gerir íþróttaiðkun erfiðari en við sjávarmál og líkaminn þreytist fyrr en ella. Bærinn er afar fallegur og stendur við „Spegilvatn“ (Mirror Lake) þar sem má stunda hinar ýmsu vatnaíþróttir. Tvisvar hafa verið haldnir Ólympíuleikar í Lake Placid, árið 1932 og 1980. Fyrir hvora keppni voru reist skautasvell sem eru hlið við hlið í byggingum sem hafa verið tengdar saman. Eldra svellið er notað í æfingar en hið yngra í keppni því þar er fjöldinn allur af áhorfendabekkjum enda tekur höllin 7500 manns í sæti.
Keppt var í öllum keppnisgreinum listhlaups utan Synchro, svo ætla má að hátt í 300 íþróttamenn hafi verið í bænum ásamt fylgarliði og starfsfólki mótsins.
Fyrstu dagarnir fóru í æfingar, fyrst svokallaðar music rotations æfingar en þá er keppendum skipt upp í 5-6 skautara æfingaslott og ákveður skautarinn sjálfur hvort leikin er stutta eða frjálsa prógram tónlist hans. Eftir að dregið hefur verið í keppnisröð breytast æfingarnar í aðalæfingar sem eru með sama hætti og gerist hér heima fyrir Íslandsmeistaramót.
Aldís Kara Bergsdóttir fékk þetta mót úthlutað eftir ferli hjá Afreksnefnd ÍSS sem fer yfir og metur gengi og ástundun skautara á undangengnu ári. Junior Grand Prix mótaröðin er hæsta stig sem íslenskir junior skautarar hafa föst sæti á. Næsta stig er Junior Worlds, Heimsmeistarmót Unglinga, en á það mót þarf skautarinn að ná lágmarks tæknistigum á mótum af ISU lista. Það er því kappsmál að senda þá skautara sem bestu möguleikana eiga á að komast á þær keppnir og þá gildir að hafa prógramið hlaðið af vel útfærðum stökkum og spinnum á sem hæstu erfiðleikastigum.
Í Lake Placid var keppt með stutta prógramið á föstudag og steig okkar kona á ísinn númer 23 og framkvæmdi prógram sitt við tónlist Grandioso eftir Edvin Marton. Aldísi gekk afar vel, axelinn var hár og fallegur og þrefalt Salchow í samsetningu með tvöföldu Toeloop sömuleiðis. Aðeins einn spin gekk ekki sem skyldi sem má kannski skýra af gífurlegum krafti sem Aldís setti í að framkvæma prógramið sitt þannig að erfiðlega gekk að beisla camelinn.
Á laugardag var svo keppt með frjálsa prógraminu og fékk Aldís að starta önnur í hópi 3. Aftur var okkar kona með kraftinn í farteskinu og skautaði við Tristan and Isolde eftir Maxime Rodrigues. Þrefalda Salchowið sem hún hafði planað í byrjun lét á sér standa en axelinn sem fylgdi var glæsilegur. Spinnarnir voru afar vel útfærðir og prógrömin bæði glæsileg. Nokkur lítil mistök hér og þar en virkilega vel heppnuð frumraun á Junior Grand Prix mótaröðinni og lauk hún keppni í 20. sæti.
Aldís felldi nokkur met í ferðinni. Fyrir stutta prógramið fékk hún 39.28 stig, fyrir frjálsa fékk hún 67.15 og heildarstigin urðu 106.43. Allt eru þetta stigamet íslensks skautara á JGP og bætti hún öll met Viktoríu Lindar Björnsdóttur frá því í fyrra.
Keppnisreynsla á svona stórmótum kemur með tímanum og því mikilvægt að skautararnir og þjálfarar þeirra drekki upp allar þær upplýsingar sem í boði eru til betrunar og framþróunar. Reynsla of móti sem þessu þar sem keppnisþjóðir eru 28 í kvennaflokki gefur gott tækifæri til að fylgjast vel með öðrum og læra. Stjarna íslensku skautanna rís hægt og stöðugt upp á við og verður gaman að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér.
Hér má sjá frjálsa prógram Aldísar Köru frá Lake Placid