Skautasamband Íslands hefur ekki farið varhluta af umræðunni sem hefur átt sér stað undanfarna daga og mánuði innan skauta íþróttarinnar um heim allan þar sem margir núverandi og fyrrverandi skautarar, íslenskir sem og erlendir, hafa komið fram og sagt sína sögu í samskiptum sínum við þjálfara innan íþróttarinnar.
Mikilvægt er að umræða sem þessi fari af stað til að opna augu okkar fyrir þeim raunveruleika sem skautararnir okkar standa fyrir. Eins og um alla íþróttaiðkun þá er gríðarlega mikilvægt að það umhverfi sem börn stunda skautaiðkun sé öruggt og uppbyggilegt. Lykilmanneskja barna í íþróttaiðkun er þjálfari þess, hann er fyrirmynd iðkenda í orði og verki. Mikilvægi þess að hann leitist við að skapa jákvætt umhverfi þar sem öllum iðkendum líður vel, upplifi sig örugga og eru óhræddir við að gera mistök er gríðarlegt. Hlutverk félaga er ekki síður mikilvægt í þessu samhengi.
Skautasamband Íslands fordæmir alla ofbeldishegðun innan íþróttarinnar. Hvort sem það er af höndum þjálfara, iðkenda, aðstandenda eða áhorfenda. Það er vilji og von okkar að núna sé tækifæri til þess að opna enn betur á þessa umræðu, að hún sé tekin alvarlega með það að markmiði að stoppa ofbeldishegðun í orði sem og gjörðum og vinna saman að bættri framtíð íþróttarinnar.
Síðustu ár hefur Stjórn ÍSS sýnt vilja sinn í verki í þessum efnum og má þar nefna uppfærðar siðareglur og hegðunarviðmið ÍSS. Einnig ber að nefnda málstofu sem haldin var fyrir stjórnir félaga samhliða síðasta Skautaþingi sem bar yfirskriftina “Siðareglur ÍSS og birtingarmyndir ofbeldis innan íþróttarinnar”. Viljum við ítreka við þetta tækifæri skyldur allra sem koma að íþróttinni til þess að fylgja siðareglum ÍSS, ÍSÍ og ISU.
En betur má ef duga skal. Mikilvægt er að allir: ÍSS, félög, þjálfarar, skautarar og foreldrar vinni saman að þessu sameiginlega markmiði. Markmiðið er að uppræta og útiloka ofbeldi og birtingarmyndir þess innan íþróttarinnar.
Það er mikilvægt að stíga rétt skref, styrkja menntun þjálfara og gera kröfur um að starfandi þjálfarar, innlendir sem erlendir uppfylli ákveðin skilyrði. Það er mikilvægt að aðgerðaráætlun sé til staðar innan allra íþróttafélga og sérsambanda sem hægt sé að grípa til ef upp koma ofbeldisatvik hvort heldur sem þau eru andleg eða líkamleg. ÍSS hefur hingað til notast við aðgerðaráætlun ÍSÍ og er komin í vinnslu aðgerðaráætlun hjá ÍBR sem gefin verður út fljótlega. Opna þarf umræðuna og færa öll mál sem upp koma í réttan farveg. Allar ábendingar sem koma á borð ÍSS eru unnar og er trúnaðar gætt í öllum málum.
Er þetta ritað með von um gott samstarf að þessu þarfa málefni því átak verður ekki gert nema allir rói í sömu átt. Við viljum ekki að íþróttamennirnir okkar fari út í samfélagið með brotna sjálfsmynd.
Fh. Skautasambands Íslands
Guðbjört Erlendsdóttir
Formaður stjórnar ÍSS