#skatingiceland
RIG 2022: Síðasti keppnisdagur

RIG 2022: Síðasti keppnisdagur

Gull og silfur hjá íslenskum skauturum á RIG 2022

Síðasti keppnisdagur á listskautamóti Reykjavík International Games fór fram í Skautahöllinni í Laugardal í dag með æfingum í fullorðins- og unglingaflokkum.

Fyrsti keppnisflokkur dagsins var Junior Women (unglingaflokkur kvenna)
Keppt var í öfugri úrslitaröð frá deginum áður og var mikil eftivænting í höllinni eftir íslensku stúlkunum. Lena Rut Ásgeirsdóttir var fjórði skautarinn í keppnisflokknum. Hún átti stórgóðan dag og bætti sitt persónulega met til muna. Stigin hennar fyrir frjálsa prógrammið voru 54.41 stig og samanlögð stig hennar 80.38 sem skilaði henni 14. sætinu. Júlía Sylvía Gunnarsdóttir var næst íslensku keppendanna en hlekktist á í byrjun prógramsins sem setti örtlítið svip á frammistöðuna. Stigin voru samt sem áður góð því Júlía Sylvía gaf allt í og kláðari með glæsibrag, fékk 55.46 stig fyrir frjálsa prógramið og 94.74 samanlagt sem skilaði henni sjötta sætinu að lokum.

Júlía Rós Viðarsdóttir hafði verið í þriðja sætinu frá deginum áður hlekktist örlítið á í byrjun prógramsins en skilaði restinni af fullum krafti og uppskar 71.14 stig og ljóst að hún yrði á palli en bíða þurfti og sjá í hvaða sæti hún myndi lenda. Tvær norskar stúlkur skautuðu á eftir henni en gekk ekki sem skildi og stóð Júlía Rós því uppi sem sigurvegari dagsins með samtals 112.80 stig.

Edward Appleby frá Bretlandi var eini keppandinn í Junior Men (unglingaflokkur karla) á þessu móti. Hann kom á RIG 2020 og er því mótinu góðkunnur. Edward sýndi góð tilþrif á ísnum m.a. tvo þrefalda Axela og sjaldan verið skautari á ísnum sem sýnt hefur þvílíka takta. Edward fékk fyrir prógramið 98.88 stig og 162.57 stig samanlagt.

Næsti flokkur var Senior Men (fullorðinsflokkur karla) og þar var Lauri Lankila frá Finnlandi eini keppandinn. Lauri hafði ekki gengið sem skyldi í stutta prógraminu en lagði allt sitt í það frjálsa. Stigin fyrir daginn voru 100.50 og heildarniðurstaðan 151.85 stig.

Þá var komið að Senior Women (fullorðinsflokkur kvenna) og hóf Aldís Kara Bergsdóttir leikinn. Aldís Kara er á sínu þriðja móti á jafn mörgum vikum sem er gífurlega erfitt. Eftir stutta prógramið hafði hún verið í þriðja sæti en í dag átti hún betri dag og kláraði erfiðustu elementin sín glæsilega. Stigin fyrir frjálsa prógramið urðu 78.92 og í heildina 117.31. Á eftir henni kom svo Frida Thuridotter Berge frá Noregi. Hún átti betri dag í gær heldur en í dag með 73.03 stig og uppskar 115.97 stig og ljóst að Aldís Kara hafði að minnsta kosti skautað sig upp um eitt sæti. Síðust kom svo sú sem hafði trónað á toppnum eftir fyrri daginn, Petra Palmio frá Finnlandi. Petra sýndi afar sterka takta, góð stökk og yfirburðar skautafærni. Fyrir frammistöðuna sína í dag komu 89.92 stig í hús og hélt fysta sætinu með 141.72 stig í heildina.

Það var því finnski þjóðsöngurinn sem fékk að hljóma tvisvar í dag í báðum senior flokkum og breski og sá íslenski í junior flokkum og má segja að það hafi varla verið þurr þráður á nokkrum hvarmi í höllinni þegar sá íslenski glumdi í fullri hátíðarútgáfu.

Reykjavíkurleikunum á listskautum árið 2022 er því lokið.

Úrslit mótsins má finna á http://iceskate.is/wp-content/uploads/mot/2022/RIG2022/html/

Translate »