Að lokum þremur keppnis dögum eru úrslit orðin ljós í fjórum flokkum Novice A (stúlknaflokk A) stúlkur og piltar og Junior A (unglingaflokk A) kvenna og karla. Keppnin í þessum flokkum er gríðarlega hörð og talsverðar breytingar á röðun frá því að loknu stutta prógramminu og að loka úrslitum að loknu frjálsu prógrammi.
Á föstudaginn lauk keppni í Novice flokkunum.
Í Novice A stúlkur bar hin knáa Selma Ihr frá Svíþjóð sigur úr bítum með 103.84 stig, í öðru sæti varð Vera Stolt frá Finnlandi með 98.51 stig og þriðja varð Emilie Nordqvist frá Svíþjóð með 90.32 stig.
Ísland átti fjóra keppendur í þessum flokki þær Aldísi Köru Bergsdóttur, Ásdísi Örnu Fen Bergsveinsdóttur, Mörtu Mariu Jóhannsdóttur og Viktoríu Lind Björnsdóttur. Marta María var efst íslensku stúlknanna og hafnaði í 12 sæti með 69.32 stig. Aldís Kara varð 16. með 63.29 stig, Viktoría Lind varð 18. með 61.44 stig og Ásdís Arna Fen hafnaði í 19. Sæti með 60.92 stig.
Í Novice A piltar bar hinn ungi Casper Johansson frá Svíþjóð sigur úr bítum með 102.42 stig, annar varð Andreas Nordebäck frá Svíþjóð með 84.84 stig og þriðji varð Lucas Strzelec frá Danmörku með 75.33 stig.
Í dag hófst keppni á Open Nordic hluta Norðurlandamótsins. Þar eru skautarar frá 11 þjóðum skráðir til leiks.
Konurnar voru fyrstar á ísinn í morgun. Mikill spenningur var fyrir keppni í kvennaflokki, enda mörg þekkt nöfn skráð til leiks. Má þar nefna meðal annarra Carolina Kostner frá Ítalíu, Elizaveta Tuktamysheva frá Rússlandi og Joshi Helgeson frá Svíþjóð.
Að loknu stutta prógramminu raða þær þrjár sér í þrjú efstu sætin. Carolina Kostner stendur efst með 64.85 stig, önnur er Elizaveta Tuktamysheva með 60.72 stig og þriðja er Joshi Helgeson með 56.10 stig. Skammt á eftir þeim er hinn unga Anita Östlund frá Svíþjóð með 54.48 stig. Það verður gaman að fylgjast með gangi mála á morgun og hefst keppni í kvennaflokki kl. 09.00.
Í Karlaflokki var keppnin ekki alveg jafn jöfn, en spennandi þó. Að loknu stutta prógramminu er hinn franski Chafik Besseghier efstur með 73.79 stig, annar er Ondrej Spiegl frá Svíþjóð með 66.34 stig og þriðji er Daniel Albert Naurits frá Eistlandi með 63.71 stig. Keppni í karlaflokki hefst kl. 11.15 (áætlaður tími).
Eftir hádegi var svo komið að frjálsa prógramminu hjá Junior A – menn. Þar urðu nokkrar tilfærslur á milli sæta að loknu frjálsa prógramminu í dag. Þetta endaði með þreföldum sænskum sigri. Nikolaj Majorov frá Svíþjóð hélt fyrsta sætinu og hlaut hann samanlagt 149.58 stig, annar varð Natran Tzagai frá Svíþjóð með 142.88 stig sem fór upp um eitt sæti og þriðji varð Mikael Nordebäck frá Svíþjóð með 130.40 stig sem hoppaði upp um þrjú sæti frá því á fimmtudaginn að loknu stutta prógramminu.
Því næst var komið að frjálsa prógramminu hjá Junior A – konur. Þar urðu líka talsverðar tilfærslur á milli sæta í dag. Hin finnska Linnea Ceder sigraði flokkinn. Hún gerði sér lítið fyrir og hækkaði sig úr 4 sæti. Önnur varð Sofia Sula frá Finnlandi með 117.92 stig og þriðja varð Cassandra Johansson frá Svíþjóð með 116.86 stig, hún var fyrst að loknu stutta prógramminu á fimmtudaginn.