#skatingiceland
Norðurlandamót 2018

Norðurlandamót 2018

Þann 1.-4. febrúar sl. fór fram Norðurlandamót í listskautum.

Mótið var að þessu sinni haldið í Rovaniemi, Finnlandi.
 
Á þessu Norðurlandamóti voru íslenskir keppendur að vinna til fleiri afreka en á nokkru Norðurlandamóti hingað til. Skautasamband Íslands gat að þessu sinni sent fullskipað lið skautara en fjórir Advanced Novice, fjórir Junior og þrír Senior keppendur voru sráðir og eru það öll sæti sem sambandið fær.
 
Í Advanced Novice kepptu fjórar stúlkur. Ísold Fönn Vilhjálmsdóttir hafði viku fyrir mótið þurft að draga sig í hlé vegna meiðsla og hljóp fyrsti varamaður, Ásdís Arna Fen Bergsveinsdóttir, inn fyrir hana.
 
Viktoría Lind Björnsdóttir var hæst íslensku skautaranna í þessum flokki. Eftir stutta prógramið var hún í 8. sæti með 30.09 stig sem er eigið stigamet (PB). Í frjálsa prógraminu fékk hún 46.67 stig eftir lítil mistök í stökksamsetningu en samanlögð stig hennar voru 76.76 og skiluðu henni í 12. sæti. Það skilaði henni einnig bestu stigum sem íslenskur novice skautari hefur náð á Norðurlandamótinu.
 
Aldís Kara Bergsdóttir fékk í stutta prógraminu 26.08 stig og var í 14. sæti eftir fyrri keppnisdag. Í frjálsa prógraminu fékk hún 45.23 stig og samanlagt 71.31 stig og fullróteruðum tvöföldum Axelum í báðum prógrömum og 14. sæti.
 
Rebekka Rós Ómarsdóttir átt tvo góða daga. Eftir stuttaprógramið sat hún í 18. sæti með 24.80 stig. Hún hélt sætinu eftir frjálsa prógramið sem hún fékk 43.48 stig fyrir og samanlagt 68.71 stig. Rebekka var að keppa á sínu fyrsta Norðurlandamóti.
 
Ásdís Arna Fen Bergsveinsdóttir var, eins og áður sagði, ræst út viku fyrir mótið. Hún skautaði sterkt stutt prógram sem skilaði 23.87 stigum og 20. sæti eftir fyrri daginn. Ásdís átti síðan sterkan seinni dag á ísnum með 41.46 stig, 65.33 stig samanlagt og 20. sæti.
 
Allar stúlkurnar í Advanced Novice eru geysilega sterkir keppendur sem sést á því að einungis 1.50 stig skilur að tæknistig þeirra og flestar framkvæma einhver stökk með Tano eða Rippon (önnur eða báðar hendur yfir höfði).
 
Í Junior flokki voru einnig fjórar stúlkur skráðar. Kristín Valdís Örnólfsdóttir ákvað að sitja hjá á þessu móti þar sem hún mun taka þátt í Sofia Trophy um næstu helgi (9.-11.febrúar)
Í staðin fyrir hana stökk inn fyrsti varamaður, Herdís Birna Hjaltalín, með einungis sólarhrings fyrirvara.
 
Efst íslensku stúlknanna í Junior varð Marta María Jóhannsdóttir. Í stutta prógraminu fékk hún 34.08 stig og var í 11. sæti fyrir frjálsa. Marta átti góðan dag í frjálsa prógraminu og fékk fyrir það 59.15 stig og samanlagt 93.23 fyrir bæði prógröm og 10. sæti. Þetta er besti árangur íslensks skautara á Norðurlandamótinu í junior bæði stig og sæti.
 
Emilía Rós Ómarsdóttir fékk 30.20 stig fyrir stutta prógramið sitt og sat í 15. sæti eftir daginn. Hún átti síðan gott frjálst prógram en datt því miður í sporunum og fékk hnykk en kláraði eins og hetja með 55.51 stig fyrir prógramið. Samanlagt fékk hún 85.71 stig og hélt sæti sínu.
 
Margrét Sól Torfadóttir salsaði í gegn um stutta prógramið á fyrri deginum með 30.80 stig þannig að hún sat í 14. sæti eftir fyrri keppnisdaginn. Margrét kláraði síðan stökkin með glæsibrag í frjálsa prógraminu og hlaut fyrir 54.34 stig. Samanlögð stig voru því 85.14 og endaði hún í 17. sæti.
 
Herdís Birna Hjaltalín skilaði 27.41 stigi í hús eftir stutta prógramið og 20. sæti eftir að hafa dottið tvisvar. Hún kom því tvíefld inn í frjálsa prógramið og átti come-back dagsins. Hún negldi öll stökkin og spinnana og fékk hæstu tæknistig íslensku juniorana þann daginn, eða 27.02 stig. Fyrir frjálsa prógramið fékk hún 55.28 stig og samanlagt 82.69 stig og skautaði stig þar með upp og endaði í 19. sæti.
 
Í senior voru þrír keppendur skráðir til að keppa fyrir Ísland. Júlía Grétarsdóttir þurfti að hætta við keppni sökum þess að vera ekki orðin nógu góð af meiðslum.
 
Eva Dögg Sæmundsdóttir fékk rásnúmer 12 í sterkum flokki danskra, norskra og finnskra stúlkna sem keppt hafa á Evrópumótum. Eva stóð sig vel og skilaði 30.93 stigum og 15. sæti í stutta prógraminu og reyndi þrefalt stökk. Munu þessi stig hennar vera persónulegt met(PB) í þessum flokki. Í frjálsa prógraminu fékk hún 62.04 stig og er úrslitin voru kunn hafði hún hækkað sig um sæti í það 14. með 92.97(PB). Þessi stig eru einnig hæstu stig sem íslenskur senior skautari hefur fengið á Norðurlandamótinu hingað til.
 
Þuríður Björg Björgvinsdóttir skautaði önnur í stutta prógraminu fallegt prógram sem hún fékk 28.15 stig fyrir og 16. sæti. Hún var eini íslenski keppandinn sem reyndi tvö þreföld stökk Salchow og toeloop og voru bæði ófullsnúin (<) en vissulega vel af sér vikið. Í frjálsa prógraminu kláraði hún með 57.82(PB) stig og endaði samanlagt með 85.97(PB) stig og 15. sæti.
 
Á mótið sendi Skautasamband Íslands fulltrúa sína á dómara og tæknipanel.
Til þess að geta starfað á mótinu þarf að hafa Alþjóðleg réttindi, að lágmarki.
Dómarar voru Halla Björg Sigurþórsdóttir og María Fortescue. Tæknisérfræðingur (TS) var Ásdís Rós Clark og Data og Replay Operator var Sunna Björk Mogensen.
 
Skautarar, dómarar og tæknifólk sem og þjálfarar voru landi sínu til sóma og vel var haldið utan um hópinn af Kristínu Þöll Þórsdóttur farastjóra sem er orðin þaulreynd í þessum aðstæðum.
Translate »