Íslandsmeistaramót ÍSS 2018 fór fram í Egilshöll dagana 1. - 2. desember sl.
Mótið fór vel fram í heild sinni og var mjög fagmannlega að öllu staðið á mótsstað.
Á fyrri keppnisdegi var keppt með stutt prógram og þeim seinni með frjálst prógram.
Fyrsti keppnisflokkurinn var Advanced Novice Girls. Þar var Ísold Fönn Vilhjálmsdóttir, SA, að verja Íslandsmeistaratitil sinn frá síðasta ári. Hún gerði sér lítið fyrir og setti Íslandsmet í stigum fyrir stutt prógram og var því efst eftir stutta með 41.51 stig. Önnur var Rebekka Rós Ómarsdóttir, SR, með 27.68 stig. Og sú þriðja var Herdís Heiða Jing Guðjohnsen, SR, með 26.52 stig. Stúlkurnar í fjórða og fimmta sæti voru innan við stigi á eftir svo að búist var við spennandi keppnisdegi á sunnudag. Í frjálsa prógramminu var Ísold Fönn aftur efst með 64.56 stig. Önnur var Herdís Heiða með 47.69 stig og Rebekka Rós sú þriðja með 46.96 stig. Afar stutt á milli þeirra.
Í heildina sigraði Ísold Fönn Vilhjálmsdóttir með 106.07 í heildarstig og sló þar með sitt eigið Íslandsmet í heildarstigum frá síðasta ári. Önnu var Rebekka Rós Ómarsdóttir með 74.64 í heildarstig og Herdís Heiða Jing Guðjohnsen sú þriðja með 74.21 í heildarstig.
Annar keppnisflokkurinn var Junior Ladies. Marta María Jóhannsdóttir, SA, kom til þess að verja Íslandsmeistaratitil sinn frá síðasta ári og var efst eftir stutta prógrammið með 38.64 stig. Önnur var Aldís Kara Bergsdóttir, SA, með 37.94 stig, innan við einu stigi á eftir Mörtu. Og sú þriðja var Herdís Birna Hjaltalín, Fjölni, með 36.26 stig. Viktoría Lind Björnsdóttir, SR, var svo stutt á eftir í fjórða sætinu með 35.19 stig. Í frjálsa prógramminu var spennandi keppni í Junior keppnisflokknum. Marta María var efst með 64.46 stig, Aldís Kara var önnur með 62.57 stig og Viktoría Lind sú þriðja með 56.52 stig, sem færði hana upp á verðlaunapallinn.
Í heildina sigraði Marta María Jóhannsdóttir með 103.10 stig. Aldís Kara Bergsdóttir var önnur með 100.51 stig. Og Viktoría Lind Björnsdóttir sú þriðja með 91.71 stig. Þarna eru tvö efstu sætin komin yfir 100 stiga múrinn og hefur það aldrei verið niðurstaðan áður á íslenskri keppni.
Þriðji, og síðasti, keppnisflokkurinn var Senior Ladies. Íslandsmeistari 2017 í þeim flokki, Júlía Grétarsdóttir, var frá keppni þar sem að hún einbeitir sér nú að því að komast í keppnisform eftir þrálát meiðsli. Tveir keppendur kepptu sín á milli í flokknum. Í stutta prógramminu var Margrét Sól Torfadóttir, SR, efst með 33.54 stig og Eva Dögg Sæmundsdóttir, Fjölni, önnur með 29.21 stig. Í frjálsa prógramminu var Margrét Sól aftur efst með 68.71 stig og sló þar með Íslandsmet Júlíu Grétarsdóttur frá 2015 í frjálsu prógrammi í Senior flokki. Eva Dögg var önnur með 57.76 stig.
Í heildina sigraði Margrét Sól Torfadóttir á nýju Íslandsmeti á heildarstigum í senior flokki með 102.25 stig. Þar sló hún met Júlíu Grétarsdóttur frá 2015 og er jafnframt fyrsti íslenski senior keppandinn sem fær yfir 100 stig. Önnur var Eva Dögg Sæmundsdóttir með 86.97 í heildarstig.
Nýkrýndir Íslandsmeistarar ÍSS 2018 eru því:
Advanced Novice Ísold Fönn Vilhjálmsdóttir, SA.
Junior Ladies Marta María Jóhannsdóttir, SA.
Senior Ladies Margrét Sól Torfadóttir, SR.
Verðlaunaafhendingin var hin glæsilegasta. Stefán Hjaltalín, mótstjóri, Halla Björg Sigurþórsdóttir, yfirdómari, Benoit Lavoie, tæknistjórnandi, og María Fortescue, framkvæmdastjóri ÍSS, veittu verðlaunin ásamt fallegum blómvöndum sem fengnir voru að gjöf frá Möggubrá.
Skautasamband Íslands óskar Íslandsmeisturum 2018 innilega til hamingju með glæsilegan árangur. Ásamt því að hrósa öllum keppendum fyrir frábæra frammistöðu.
Innilega til hamingju Ísold Fönn – þú stendur þig mjög vel og til hamingju með litlu systuna þína 💕