Marta María Jóhannsdóttir hefur lokið keppni á Evrópuhátíð Ólympíuæskunnar EYOF, í Sarajevo í Bosníu og Herzegovínu. Marta hélt út ásamt 11 öðrum ungum íþróttamönnum í alpagreinum, skíðagöngu og snjóbretti.
Keppt var með stuttu prógrami á þriðjudeginum 12. Febrúar og hafði Marta fengið rásnúmer 25, eða önnur í síðasta keppnishópi. Stutta prógramið gekk vel og þrátt fyrir fall í Axelnum gaf Mörtu 34.59 stig og sat hún í 24. Sæti eftir daginn.
Dregið var um rásnúmer í frjálsa prógraminu og dró okkar kona rásnúmer 10. Marta sýndi hetjulega frammistöðu og reyndi tvöfaldan Axel og 2 þreföld Salchow en fékk stökkin vansnúin og féll í einu. Hins vegar voru allir spinnarnir hennar á hæsta level og plúsum og sporin á level 3 og öll önnur stökk á plúsum. Stig fyrir frjálsa prógramið voru 69.70 og varð hún í 20. Sæti fyrir það prógram. Heildar stig hennar á mótinu voru því 104.29 og fleytti það henni upp í 21. Sæti á heildina.
Hátíðin er öll hin glæsilegasta og mikið við að vera og standa íslensku keppendurnir vel við bakið á hver öðrum eins og sjá má á myndinni af klappliðinu sem mætt var í skautahöllina til að hvetja Mörtu áfram. Einnig heyrðist vel í þeim í beinu útsendingunni frá keppninni. Næst verður lokahátíðin og síðan mun íslenski hópurinn halda heim á leið eftir frægðarför á EYOF2019.