#skatingiceland
Norðurlandamót 2020

Norðurlandamót 2020

Norðurlandamótið 2020 fór fram í Stavanger, Noregi frá 6.-9. Febrúar.

Í dag, sunnudag, kom íslenski landsliðshópurinn heim eftir vel heppnað og skemmtilegt mót.
Mótið fór vel fram og var mikil samheldni í hópnum. Má því þakka frábærri fararstjórn sem var í höndum Nadiu Margrétar Jamchi. Með í ferðinni voru tveir þjálfarar þau Darja Zajcenko og Guillaume Kermen.
Á mótinu starfaði einnig dómara og tæknifólk frá Íslandi, þær María Fortescue, Halla Björg Sigurþórsdóttir og Sunna Björk Mogensen.

Advanced Novice

Keppni hófst á fimmtudegi með stuttu prógrami hjá Advanced Novice.
Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir var fyrst á ísinn af íslensku keppendunum, en hún er á sínu fyrsta Norðurlandamóti. Freydís byrjaði með flottum Axel en gerði nokkur mistök eftir það og fékk 21.93 stig sem er nokkuð frá hennar besta. Hún sat í 20. sæti eftir daginn.  Næst að keppa var Eydís Gunnarsdóttir sem gerði gott prógram og fékk 23.03 stig og var í 19. sæti eftir stutta prógramið.. Síðust íslensku keppendanna í Novice var svo Júlía Rós Viðarsdóttir. Mínuslaus frammistaða hennar fleytti henni í 13. sæti með 27.92. stig.
Seinni keppnisdagur þeirra var á föstudeginum. Keppnisröðin var öfug úrslitaröð frá fyrri deginum.
Það var Freydís Jóna Jing sem hópf keppnig og stóð hún sig með ágætum. Fyrir frjálsa prógramið sitt fékk hún 42.17 stig og samanlagt 65.10 stig fyrir bæði prógröm og 20. sætið. Eydís skautaði strax á eftir henni. Eydís hefur verið í stöðugri uppsveiflu undanfarið og gott gengi á RIG20 gaf henni byr undir báða vængi. Element gengu vel og voru stigin hennar 44.44 fyrir frjálsa og samanlögð stig 67.47 og 19. sæti. Júlía Rós sat sem fyrr segir í 13.sæti eftir stutta prógramið. Júlíu hefur gengið vel undanfarið og verið fremst íslenska skautara í Advanced Novice. Henni gekk mjög vel á seinni keppnisdegi. Spinnar og spor vpru öll á Level3, sem eru hæstu level sem hægt er að fá í þessum keppnisflokki. Fyrir frjálsa prógramið fékk hún 51.72 stig og 9. seæti þann daginn. Samanlagt fékk hún 79.64 stig og skautaði sigg upp í 11. sæti í heildina. Þetta eru hæstu stig sem íslenskur skautari hefur fengið í Advanced Novice á Norðurlandamóti og bætti hún þar með met Viktoríu Lindar Björnsdóttur frá árinu 2018 um 2.88 stig.

Junior Ladies

Keppnin hjá Junior Ladies hófst á fimmtudagskvöldi. Herdís Birna Hjaltalín var fyrst þeirra á ísinn. Hún átti stórgóðan dag og fékk 32.47 stig og 22. sætið eftir daginn. Marta María Jóhannsdóttir var næst íslenskra keppenda. Hún átti fínt prógram og þétta frammistöðu með 36.57 stig og lenti í 14. sæti eftir daginn. Aldís Kara Bergsdóttir var næst og opnaði með gullfallegum tvöföldum Axel. Aldís fékk 35.13 stig og var í 18. sæti eftir daginn. Síðust allra keppenda í stutta prógraminu var svo Viktoría Lind Björnsdóttir. Viktoría fékk 33.00 stig og 21. sætið eftir daginn.
Keppni með frjálst prógram fór svo fram á laugardagseftirmiðdegi. Annar keppandinn í flokknum, en fyrst íslenskra skautara, var Herdís Birna. Fyrir frjálsa prógramið fékk hún 52.49 stig og samanlagt 84.96 stig og 23. sætið að lokum. Strax á eftir henni skautaði Viktoría Lind. Henni gekk vel og gerði flott þrefalt Salchow í samsetningu og glæsilega spinna. Hún tók hástökk upp listann með 63.99 stig fyrir fjálsa prógrammið og 96.99 stig í heildina sem skilaði henni 19. sætinu. Aldís Kara var næst íslensku keppendanna. Hún hafði sett sér metnaðarfullt markmið fyrir keppninga og opnaði með vel framkvæmdum þreföldum stökkum, þar á meðal einu strax í þriggja stökka samsetningu. Frjálsa prógrams frammistaðan henanr var nánast mínuslaus sem gaf henni 43.34 tæknistig, þau hæstu í keppnisflokknum, og 80.26 samanlagt fyri frjálsa prógrammið og 5. sætið í frjálsa. Heildarstig Aldísar voru 115.39 stig og endaði hún í 8. sæti. Eru þetta hæstu stig íslensk skautara í Junior flokki á Norðurlandamóti. Hún bætti eigið met frá síðasta ári um 11.87 stig. Síðust íslensku skautaranna var Marta María. Marta skautaði mjög örugg og raðaði niður flottum stökkum. Frammistaða hennar var mjög kraftmikil og spinnarnir hraðir og öruggir. Hún fékk 66.61 stig fyrir frjálsa prógramið og samanlagt 103.18 stig og endaði í 16. sæti.

Á síðasta Norðurlandamóti var reglum um Junior flokka breytt á þann veg að flokkarnir eru nú opnir öllum ISU þjóðum, líkt og í Senior flokkum. Þessi breyting hefur í för með sér að stig sem skautarar vinna sér inn á Norðurlandamótinu gilda sem lágmörk til þátttöku á ISU Junior Worlds (Heimsmeistaramót unglinga). Segja má með sanni að þetta hafi verið farsæl breyting fyrir íslenska keppendur þar sem að Aldís Kara náði, með frammistöðu sinni í frjálsa prógraminu á laugardag, að vinna sér inn lágmarksstig sem þarf til þátttöku á Junior Worlds. Ekki nóg með það heldur fékk hún 5.34 stigum meira en til þarf. Lágmörkunum í stutta pógramminu hafði hún náð á Halloween Cup í október og aftur á Reykjavíkurleikunum nú í janúar.

Fyrirlestrar fyrir þjálfara

Samhliða Norðurlandamótinu er alltaf haldin fræðslufundur fyrir þjálfara. Yfirskrift fyrirlestrana að þessu sinni var þróun karlkyns skautara. Sondre Oddvoll Boe frá Noregi talaði um hvernig maður heldur áhuga þegar maður er sá eini í íþróttinni. Stephane Lambiel kom einnig og talaði um hvernig þjálfa má skautara í afreksmann þótt hann komi frá lítilli þjóð. Stephane Lambiel er fyrrum afreksskautari sjálfur frá Sviss en hefur núna snúið sér að þjálfun og hefur m.a. þjálfað Denis Vaselijevs frá Lettlandi sem var einnig keppandi á Norðurlandamótinu.

Það var þvílík gleði og skemmtun að horfa á stúlkurnar keppa á mótinu.
Skautasamband Íslands óskar þeim öllum innilega til hamingju með frábæran árangur og horfir stolt til framtíðar íþróttarinnar með þessu frábæra íþróttafólki.

Translate »