Eftir hádegishlé á RIG voru þrír flokkar á dagskrá sem keppa einungis með frjálst prógramm og réðust því úrslit í þeim flokkum í dag.
Basic Novice hófu keppni en þetta er einn stærsti keppnisflokkur mótsins með ellefu keppendur skráða. Aldursbil keppenda er frá 10 til 12 ára og mikill keppnisandi í hópnum. Allir voru í sínu fínasta pússi og sýndu hver þeirra hin glæsilegustu tilþrif og lögðu allt sitt í prógrömin sín. Keppendur frá SR eru í meirihluta í þessum flokki en af þeim 11 keppendurm sem voru skráðir voru 8 frá SR. Prógrömin í þessu flokki eru oftast í léttum dúr og mikið um söngleikja og kvikmyndatónlist og búningarnir eftir því. Það var því mikil litadýrð í efnisvali og gaman að sjá hve mikið keppendur leggja í framkomu sína. Margir keppendur eru á svipuðu róli og keppnin því æsispennandi en það var keppnandi frá Akureyri, Berglind Inga Benediktsdóttir, sem sigraði með 27,64 stigum, í öðru sæti varð Elva Ísey Hlynsdóttir úr Fjölni með 26,17 stig og þriðja varð Indíana Rós Ómarsdóttir, SR, með 21,62 stig. Mjótt var á munum milli þriðja og fimmta keppanda eða 0,46 stig og verður varla minna en þetta.
Á eftir þeim komu keppendur í Intermediate Novice. Fimm keppendur voru skráðir til leiks og var mjótt á munum milli keppenda eða um 4 stig. Úrslit fóru þannig að Rakel Sara Kristinsdóttir úr Fjölni sigraði með 24,65 stig. Önnur varð Vilborg Gróa Brynjólfsdóttir úr SR með 23,60 stig og þriðja varð Hugrún Helga Einarsdóttir, einnig úr SR, með 22,27 stig. Afar spennandi keppni í þessum flokki þar sem mjótt var á mununum.
Intermediate Ladies ráku svo lestina í dag. Í þessum flokki eru afar sjóaðir keppendur 15 ára og eldri. Tveir keppendur mættu til leiks í dag, báðar úr SR. Eftir að stúlkurnar höfðu skautað stóð Edda Steinþórsdóttir upp sem sigurvegari með yfirburðum og fékk 36,38 stig og önnur varð Anna Björk Benjamínsdóttir með 23,38 stig.
Engir áhorfendur voru leyfðir á keppninni en fulltrúar félaga og aðrir keppendur sátu í stúkunni og létu í sér heyra hvað þeir máttu til að hvetja keppendur áfram.