Ísland hefur nú lokið þátttöku sinni á Junior Grand Prix 2021
ISU Junior Grand Prix of Figure Skating (JGP) er mótaröð sem hófst árið 1997. Mótaröðin samanstendur af sjö mótum og einu úrslitamóti (ISU Junior Grand Prix of Figure Skating Final). Á mótaröðinni keppa skautarar sem eru á hraðri uppleið í skautaheiminum og gefur skauturum sem eru á aldrinum 13 til 19 ára tækifæri til þess að keppa á háu getustigi alþjóðlega. Mótaröðin er nú haldin í 24. sinn.
Stigakerfi sem byggir á úrslitum móta er notað til að ákvarða hverjir vinna sér inn þátttökurétt á úrslitamótinu. Sex keppendur í hverri keppnisgrein (einstaklings kvenna og karla, pör og ísdans) keppa til úrslita.
Skautasamband Ísland sendi að þessu sinni tvo skautara til keppni fyrir hönd Íslands á samtals þremur mótum á mótaröðinni. Báðir skautararnir eru að keppa í fyrsta sinn á Junior Grand Prix mótaröðinni og sýndu þær báðar frábæra frammistöðu.
Dagana 18.-21. ágúst & 25.-28. ágúst fóru fram tvö mót með stuttu millibili í Courchevel í Frakklandi.
Júlía Rós Viðarsdóttir keppti á báðum þessum mótum fyrir hönd ÍSS. Þjálfari Júlíu Rósar er Darja Zajcenko en hún er einnig danshöfundurinn af prógrömmum hennar.
Ferðalagið í þennan skíðabæ í frönsku Ölpunum var strembið og tók sinn tíma að venjast því að æfa og keppa í svo mikilli lofthæð.
Á fyrra mótinu vann Júlía Rós sér inn 39.35 stig fyrir stutta prógrammið sitt og 16. sætið þann daginn. Í frjálsa prógramminu skautaði hún sig upp í 13. sætið með 72.19 stigum. Heildarstig hennar voru því 111.54 og 16. sætið í heildina.
Með þessum stigum sýndi Júlía Rós besta árangur Íslands á Junior Grand Prix. Fyrra metið átti Aldís Kara frá árinu 2019.
Á seinna mótinu fékk Júlía Rós 37.04 stig fyrir stutta prógrammið sitt og 16. sætið þann daginn. Í frjálsa prógramminu hafnaði hún í 18. sæti með 63.31 stig. Heildarstig hennar voru því 100.35 og 18. sætið.
Dagana 22.-25. september fór fram síðasta mótið á mótaröðinni sem Ísland á fulltrúa á í Ljubljana í Slóveníu.
Þar keppti Júlía Sylvía Gunnarsdóttir fyrir hönd ÍSS og ferðaðist hún til Slóveníu með þjálfara sínum Lorelei Murphy.
Fyrir stutta prógrammið fékk Júlía Sylvía 28.56 stig og 29. sætið þann daginn. Fyrir stutta prógrammið fékk hún svo 56.39 stig og færði hún sig upp í 27. sætið þann daginn. Heildarstig Júlíu Sylvíu voru því 84.95 og 28. sætið samanlagt.
Keppnisreynsla á svona stórmótum kemur með tímanum og því mikilvægt að skautararnir og þjálfarar þeirra drekki upp allar þær upplýsingar sem í boði eru til betrunar og framþróunar. Reynsla af svo stórum mótum, með mörgum keppendum frá ýmsum þjóðum gefur gott tækifæri til að fylgjast vel með öðrum og læra.
Skautasamband Íslands óskar þeim báðum til hamingju með flottan árangur og þakkar þeim jafnframt fyrir góða framkomu þeirra fyrir okkar hönd.
Stjarna íslensku skautanna rís hægt og stöðugt upp á við og verður gaman að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér.