Fyrra keppnisdegi á Íslandsmeistaramóti ÍSS lauk í dag rétt eftir klukkan þrjú síðdegis. Í dag fór fram keppni með stutt prógram, skylduæfingar.
Það voru skautarar úr Advanced Novice sem hófu keppni.
Fyrst á ísinn var Sædís Heba Guðmundsdóttir, SA. Hún syndi sterk element og fékk góðar einkunnir fyrir Program Components. Hún er að bæta sig í bæði tæknistigum og heildarstigum. Hún er í öðru sæti eftir daginn með 26.90 stig.
Næst að skauta var Dharma Elísabet Tómasdóttir, SR. Hún var einnig að bæta sig töluvert í stigum frá síðasta móti. Eftir daginn er Dharma í þriðja sæti með 19.21 stig.
Sú þriðja til þess að keppa var Elva Ísey Hlynsdóttir, Fjölni. Elva Ísey er að keppa á sínu fyrsta móti í Advanced Novice og sýndi hún frábæra fyrstu frammistöðu. Í lok keppnisdagsins situr hún í fjórða sæti með 18.89 stig.
Síðust í keppnisflokknum var Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir, SA. Freydís er ríkjandi Íslandsmeistari í keppnisflokknum og var greinilegt að hún ætlaði ekki að gefa titilinn upp auðveldlega. Hún var með nokkuð örugga frammistöðu sem skilaði henni í efsta sæti eftir daginn með 30.14 stig.
Næsti keppnisflokkur var Junior Women. Junior flokkurinn er sterkur keppnisflokkur sem er alltaf spennandi að fylgjast með.
Fyrsti keppandinn var Júlía Rós Viðarsdóttir, SA, ríkjandi Íslandsmeistari í flokknum. Júlía Rós hefur verið á góðri siglingu og hefur bætt sig jafnt og þétt síðustu mánuði. Dagurinn í dag var engin undantekning en þrátt fyrir að Axelinn hafi ekki gengið upp hjá henni fékk Júlía Rós í dag 44.16 stig, sem eru hennar hæstu stig á tímabilinu og færði henni fysta sætið eftir daginn.
Næst á ísinn var Lena Rut Ásgeirsdóttir, Fjölni. Lena Rut er að keppa á sínu fyrsta móti á tímabilinu. Hún missteig sig örlítið í elementunum en fékk verðskuldaðar einkunnir í Program Components. Eftir daginn er hún í þriðja sæti með 23.52 stig.
Síðasti skautarinn í Junior Women var Júlía Sylvía Gunnarsdóttir, Fjölni. Júlía Sylvía fékk góðar einkunnir í Program Components sem er án efa hennar styrkleiki. Það voru ekki öll stökkin að ganga upp hjá henni en píruettur og sporasamsetning voru sterk element. Hún situr í öðru sæti eftir daginn með 34.39 stig.
Síðasti keppnisflokkur dagsins var Senior Women.
Það er eingöngu einn skautari sem keppir í þeim flokki, en skrefið úr Junior yfir í Senior er stórt.
Aldís Kara Bergsdóttir, SA, keppir þar og sýndi í dag frábæra frammistöðu á öllum sviðum. Hún negldi öll sín element og fékk mjög góðar framkvæmdareinkunnir á þau. Program Components voru einnig mjög sterkir hjá henni og hafa þær einkunnir hækkað stöðugt hjá henni.
Eftir daginn í dag er Aldís Kara með 47.31 stig og þar af 27.63 tæknistig. En með þessum stigum sló hún sitt eigið Íslandsmet um tæplega tvö stig. Fyrra metið setti hún nú í október sl. í Finnlandi.
Á morgun, sunnudag, heldur keppni áfram á Íslandsmeistaramóti ÍSS. Hefst keppnin kl.12:20.