#skatingiceland
JGP Ostrava

JGP Ostrava

Um síðustu helgi fór fram í Ostrava í Tékklandi, annað mótið á Junior Grand Prix mótaraðarinnar. Að þessu sinni átti Ísland verðugan fulltrúa er Júlía Sylvía Gunnarsdóttir steig á ísinn í stutta prógraminu á fimmtudaginn var.

Júlía Sylvía var valin til þess að vera fulltrúi Íslands á tveimur mótum á JGP mótaröðinni árið 2022.

Júlía Sylvía hefur eytt sumrinu í undirbúning fyrir mótaröðina og mætti til Ostrava með tvö splunkuný prógröm í farteskinu. Með í för var þjálfari hennar, Benjamin Naggiar, sem einnig er danshöfundur og var að fylgja Júlíu Sylvíu í fyrsta sinn á mót af þessari stærðargráðu ásamt liðsstjóranum Völu Rún Magnúsdóttur.

Ferðalagið á mótsstað gekk brösulega þar sem flug voru felld niður og þurfti að finna ný flug með stuttum fyrirvara og lengdist því ferðin óþarflega mikið. Hópurinn átti samt sem áður góðan tíma saman.

Hvorki meira né minna en 35 junior women voru skráðar til keppni og dró Júlía rásnúmer 32. Tónlistin hennar við stutta prógramið er metnaðarfull og kraftmikil poptónlist flutt af Jimin með lagið Lie. Júlía Sylvía túlkaði hvert smáatriði í glæsilegri danshönnun Benjamins og náði afar flottum spinnum sem gengu fullkomlega upp hjá henni. Tveir voru dæmdir með erfiðleikastig 4 og einn fékk 3 sem er vissulega vel af sér vikið þar sem stökkin gengu ekki alveg sem skildi og féll hún í öllum þremur. Júlía Sylvía sýndi styrk sinn með því að klára prógramið með öllum smáatriðum þrátt fyrir mistökin sem skilaði sér í flottum einkunnum í neðri partinum svokallaða þar sem túlkun og frammistaðar eru metnar. Hún uppskar því 34.01 stig fyrir daginn og sat í 28. sæti sem setti hana í annan upphitunarhóp fyrir frjálsa prógramið.

Einn frídagur kom á milli prógrama sem notaður var í æfingar og að hlaða batteríin. Í Júlíu Sylvíu býr kraftmikill skautari og næmur tónlistartúlkari sem hefur alla burði framsetningar góðra elementa og þá hæfileika að geta hrifið áhorfandann með sér í tónlistina. Keppnisdagurinn fór þó ekki eins og planað var og hetjuleg barátta mátti sín lítils gegn of mörgum mistökum sem endurspeglaðist í einkunninni. Fyrir frjálsa prógramið fékk Júlía Sylvía 50.28 stig sem er langt frá hennar besta og samanlagt 84.29 stig og 31. sæti í heildina.

Núna tekur við undirbúningur fyrir næsta JGP mót, en það fer fram í Yerevan í Armeníu 21.-24. september.
Við fylgjumst spennt með ferðalagi hennar og keppni þar.
Upplýsingar um streymi og beinan link á úrslit munu vera settar á samfélagsmiðla ÍSS

 

Translate »