Júlía Sylvía Gunnarsdóttir og Manuel Piazza náðu í dag lágmörkum til þátttöku á Evrópumeistaramótinu á listskautum
Júlía Sylvía og Manuel keppa fyrst allra í parakeppni á listskautum fyrir hönd Íslands.
Dagana 16. og 17. nóvember keppti parið í fyrsta sinn saman, en þau hafa eingöngu skautað saman síðan í júní 2024. Þau tóku þátt á NRW Trophy í Dortmund í Þýskalandi.
Keppt er tvo daga, fyrst með skylduæfingar í stuttu prógrammi og seinni daginn með frjálst prógram. Til þess að ná lágmörkum á Evrópumeistaramót þurfa sameiginleg tæknistig úr stutta og frjálsa prógramminu að vera 75.00 stig.
Laugardaginn 16. nóvember var keppt með stutt prógram. Þar fengu þau 26.41 stig í tæknieinkunn og 47.04 stig í heildina fyrir stutta prógrammið.
Sunnudaginn 17. nóvember var keppt með frjálst prógram. Þar fengu þau 49.40 stig í tæknieinkunn og 93.46 stig samanlagt fyrir frjálsa prógrammið.
Það var því ljóst að samanlagt fengu þau 75.81 stig í tæknieinkunn og 140.50 í heildarstig.
Þetta skilaði þeim keppnisrétt á Evrópumeistaramótinu í parakeppni á listskautum sem fer fram í Tallin, Eistlandi, 28.janúar - 2.febrúar 2025.
Parið hafnaði í 3.sæti á mótinu.
Fyrstu verðlaun í paraskautun fyrir Ísland.
Júlía Sylvía sem er 19 ára gömul hefur keppt fyrir hönd Íslands allan sinn feril en hingað til í einstaklingskeppni. Þar hefur hún náð góðum árangri og var m.a. fyrst Íslendinga til þess að hreppa gull á alþjóðlegu móti í fullorðins flokki.
Manuel Piazza er 24 ára skautari frá Ortisei á norður Ítalíu. Undanfarin ár hefur hann æft með fyrrum skautafélaga sínum, Anna Valesi, í Afreksmiðstöð Alþjóða Skautasambandsins (ISU) í Bergamo.
Parið æfir í Bergamo á Ítalíu í Afreksmiðstöð ISU undir handleiðslu Rosanna Murante og Ondrej Hotarek.
Þau æfa að hluta til á Íslandi undir stjórn Benjamin Naggiar, yfirþjálfara Fjölnis, en hann hefur verið þjálfari Júlíu Sylvíu síðan 2021. Benjamin Naggiar er kóreógraferinn í teyminu og hefur samið bæði keppnisprógöm parsins.
Næst á dagskrá hjá parinu eru æfingar í Bergamo, en það er stutt stopp því að næsta mót er næstu helgi þegar þau keppa á PGE Warsaw Cup í Póllandi.
Skautasamband Íslands óskar þeim Júlíu og Manuel innilega til hamingju með þennan glæsilega árangur.
Áfram Ísland !