Skautasamband Íslands sendir skauturum, þjálfurum, aðstandendum, félögum og landsmönnum öllum óskir um farsælt komandi ár og þakkir fyrir samstarfið á árinu sem er að líða.
Í lok árs er tilefni til þess að líta yfir farinn veg og rifja upp þann árangur sem skautarar okkar hafa sýnt á árinu.
Árið 2024 hefur verið viðburðarríkt á mörgum sviðum fyrir skautaíþróttir.
Íslenskir skautarar hafa staðið sig vel bæði á innlendum og erlendum vettvangi og verður spennandi að sjá hvernig þeir munu standa sig á nýju ári.
RIG 2024
RIG var haldið 26.-28. janúar í Skautahöllinni í Laugardal.
Talsverður fjöldi keppenda var kominn til Íslands til að freista þess að ná lágmörkum inn á alþjóðleg stórmót.
Því miður setti veðrið strik í reikninginn og ekki komust allir á mótið sem ætluðu sér að taka þátt.
Í Advanced Novice Girls átti Ísland 8 keppendur. Þar hafnaði Elín Katla Sveinbjörnsdóttir í 3. sæti.
Í Junior Women átti Ísland 2 keppendur. Lena Rut Ásgeirsdóttir var þar efst íslenskra skautara í 4. sæti.
Í Senior Women átti Ísland 1 keppanda. Júlía Sylvía Gunnarsdóttir hafnaði í 1. sæti, eftir að hafa verið önnur efstir stutta prógrammið. Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskur skautari fær gullverðlaun í fullorðinsflokki (senior) á alþjóðlegu móti á listskautum.
Norðurlandamótið 2024
Norðurlandamótið var haldið í Borås í Svíþjóð 1.-4. febrúar.
Keppendur Íslands voru að þessu sinni sjö þær; Júlís Sylvía, Lena Rut, Freydís Jóna, Berglind Inga, Elín Katla, Katla Karítas og Sædís Heba.
Hluti hópsins var að keppa á sínu fyrsta Norðurlandamóti en þær fengu góðan stuðning frá sér reyndari liðsmönnum í ferðinni.
Með keppnishópnum fóru tveir þjálfarar, Benjamin Naggiar og Jana Omelinova, og einn liðsstjóri, Svava Hróðný Jónsdóttir. Auk þeirra voru tveir fulltrúar á dómara- og tæknipanel, María Fortescue og Halla Björg Sigurþórsdóttir.
Í Senior flokki var Júlía Sylvía Gunnarsdóttir að keppa í fyrsta sinn á Norðurlandamóti í þeim keppnisflokki.
Fyrir stutta prógrammið fékk Júlía Sylvía 45.28 stig og 8. sætið eftir fyrri daginn.
Á sunnudegin var svo keppt með frjált prógram. Fyrir frjálsa prógrammið fékk hún 75.70 stig. Samanlagt fékk hún 120.98 stig og 9. sætið að lokum.
Þetta eru hæstu stig sem íslenskur skautari hefur fengið á Norðurlandamóti.
Að móti loknu fór fram sýning (e. Exhibition) þar sem skautaklúbburinn í bænum sá um sýningu og gesta skautarar sem keppt höfðu á Norðurlandamótinu tóku þátt. Júlía Sylvía fékk boð um að taka þátt í sýningunni og stóð hún sig frábærtlega þegar hún skautaði við útgáfu Kaleo af Vor í Vaglaskóg.
Fjölnir Bikarmeistari 2024
Í lok Vormóts ÍSS varð ljóst hvaða félag hreppti titilinn Bikarmeistarar ÍSS 2024
Félög safna stigum á mótum ÍSS yfir keppnisveturinn og tekur efsti keppandi frá hverju félagi stig fyrir félag sitt sem eru svo lögð saman eftir veturinn. Það félag sem stendur uppi með flest stig er bikarmeistari.
Þegar búið var að skoða úrslit mótsins var ljóst að listskautadeild Fjölnis stóð uppi sem sigurvegari Bikarmótaraðar 2024 með 116 stig.
Þetta er í annað sinn sem Fjölnir fær bikarinn.
Opið mót í skautahlaupi
Samhliða Vormóti ÍSS 2024 fór fram opið mót í skautahlaupi.
Mótið var opið öllum áhugasömum, ekki var nauðsynlegt að vera meðlimur í aðildarfélagi ÍSS til þess að skrá sig til keppni.
Þetta er í fyrsta sinn í 42 ár sem keppt er opinberlega í skautahlaupi á Íslandi.
Keppt var í flokkum ungmenna og fullorðinna og einnig var keppt í flokkum Special Olympics.
Sonja Henie Trophy
8. - 10. mars fór Sonja Henie Trophy fram í fyrsta sinn. Mótið var haldið í nýrri höll sem byggð var til heiðurs Sonja Henie í Osló.
ÍSS fór með landsliðshóp sinn ásamt skauturum í hæfileikamótun á mótið. Hópurinn var stór sem hélt til Osló ásamt þjálfurum, tveimur liðsstjórum og starfsfólki á dómarapanel.
Alls fóru 17 skautarar á mótið og var því mikið um að vera hjá hópnum alla helgina.
Ice Cup Camp
Í nóvember árið 2023 samþykkti stjórn ÍSS að Special Olympics vika ÍSS verði haldin í maí ár hvert. Vikan verður með ólíku sniði ár hvert en leitast verður við að mæta þörfum Skautadeildar Asparinnar, ÍF og ÍSS hverju sinni. Nú í ár var verkefnið Icecup Camp haldið í Egilshöll.
Dagana 24. - 26. maí hélt Skautadeild Aspar, með stuðningi frá ÍSS og Special Olympics Iceland, Ice Cup Camp Iceland.
Þar voru æfingabúðir fyrir keppendur í Special Olympics flokkum þar sem haldið var simulation mót. Samhliða æfingum var svo dómaranámskeið haldið.
Síðasta daginn var svo farið með alla þátttakendur og aðstandendur þeirra í skoðunarferð og kvöldverð.
25. Skautaþing ÍSS
25. Skautaþing ÍSS fór fram þann 11. maí 2024 í nýrri aðstöðu Skautafélags Akureyrar í Skautahöllinni á Akureyri.
Morguninn hófst með formannafundi þar sem að góðar umræður sköpuðust og er greinilegt að góð samvinna á sér stað þvert á félögin og geta þau einnig lært eitt og annað af hvoru öðru.
Þingforseti var Jóna Jónsdóttir, nýkjörin formaður ÍBA, en hún sat á árum áður í stjórn ÍSS.
Lagabreytingatillögur sem teknar voru fyrir voru tillögur stjórnar um endurbætur á 5. grein og voru þær breytingar samþykktar.
Hafsteinn Pálsson mætti fyrir hönd ÍSÍ og hélt stuttan tölu.
Samþykkt var endurbætt Areksstefna ÍSS.
Kosið var í stjórn og voru tveir nýjir aðilar kosnir inn í stjórn.
Stjórn ÍSS er nú svo skipuð: Svava Hróðný Jónsdóttir, formaður, Ingibjörg Pálsdóttir, Þóra Sigríður Torfadóttir, Anna Kristín Jeppesen, Rakel Hákonardóttir, Guðrún Brynjólfsdóttir og Aldís Lilja Sigurðardóttir.
Tveir voru sæmdir Silfurmerki ÍSS; Ásdís Rós Clark og Linda Viðarsdóttir
ISU Congress 2024
Alþjóðaþing Alþjóðaskautasambandssin var haldið í Las Vegas í júní.
ÍSS átti þrjá fulltrúa á þinginu. Svava Hróðný Jónsdóttir, formaður, María Fortescue, framkvæmdastjóri, og Þóra Gunnarsdóttir, fulltrúi þróunarmála.
Dagskráin á þinginu var þétt og mörg stór málefni á dagskrá
Æfingabúðir í júní
Æfingabúðir fyrir afrekshópa og afreksefni voru haldnar í Egilshöll í júní.
Að þessu sinni fengum við Jeffrey DiGregorio til okkar að sjá um ístíma ásamt góðum þjálfurum og fyrirlesurum.
Voru bæði skautarar og aðstandendur mjög ánægð með vikuna.
Júlía og Manuel fyrir Ísland
Skautasamband Ísland tilkynnti með stolti að Júlía Sylvía Gunnarsdóttir og Manuel Piazza munu keppa fyrst allra í parakeppni á listskautum fyrir hönd ÍSS.
Júlía Sylvía sem er 19 ára gömul hefur keppt fyrir hönd Íslands allan sinn feril en hingað til í einstaklingskeppni. Þar hefur hún náð góðum árangri og var m.a. fyrst Íslendinga til þess að hreppa gull á alþjóðlegu móti í fullorðins flokki. Manuel Piazza er 24 ára skautari frá Ortisei á norður Ítalíu. Undanfarin ár hefur hann æft með fyrrum skautafélaga sínum, Anna Valesi, í Afreksmiðstöð Alþjóða Skautasambandsins (ISU) í Bergamo.
Júlía Sylvía hefur flust búferlum til Bergamo þar sem parið æfir í Afreksmiðstöð ISU undir handleiðslu Rosanna Murante og Ondrej Hotarek. Parið mun einnig æfa að hluta til á Íslandi undir stjórn Benjamin Naggiar, yfirþjálfara Fjölnis, en hann hefur verið þjálfari Júlíu Sylvíu síðan 2021. Benjamin Naggiar er kóreógraferinn í teyminu og hefur samið bæði prógömm parsins.
JGP 2024
Að þessu sinni var Sædís Heba Guðmundsdóttir valin til þess að keppa á tveimur mótum á mótaröðinni fyrir hönd ÍSS. Þetta er í fyrsta sinn sem Sædís Heba keppir á JGP, en hún hóf keppni í Junior flokki á vormánuðum.
Fyrra mótið var JGP Riga Cup, í Riga Lettlandi. Heildarstigin hennar voru 86.08 og 31.sætið samanlagt.
Seinna mótið var JGP Solidarity Cup, í Gdansk Póllandi. Heildarstigin hennar voru 106.45 og 27.sætið samanlagt.
Góð frumraun á JGP mótaröðinni hjá Sædísi Hebu
Northern Lights Trophy
25. - 27. október hélt ÍSS nýtt alþjóðlegt mót.
Mótið ber heitið Northern Lights Trophy, NLT, og mun vera haldið í október.
Keppendur voru mættir frá fjölmörgum löndum ásamt öllum fremstu skauturum Íslands.
Mótinu var skipt upp í interclub og alþjóðlegt mót. Í interclub var keppt í flokkum Basic Novice, Intermediate Novice, Intermediate Women/Men og Advanced Novice. Á alþjóðlega mótinu var svo keppt í Junior og Senior.
Mótið gekk mjög vel og var mikil ánægja hjá keppendum, þjálfurum, aðstandendum. starfsfólki og sjálfboðaliðum.
Júlía og Manuel með lágmörk inn á Evrópumeistaramót
Júlía Sylvía og Manuel keppa fyrst allra í parakeppni á listskautum fyrir hönd Íslands.
Til þess að ná lágmörkum á Evrópumeistaramót þurfa sameiginleg tæknistig úr stutta og frjálsa prógramminu að vera 75.00 stig.
Dagana 16. og 17. nóvember keppti parið í fyrsta sinn saman, en þau hafa eingöngu skautað saman síðan í júní 2024. Þau tóku þátt á NRW Trophy í Dortmund í Þýskalandi.
Samanlagt fengu þau 75.81 stig í tæknieinkunn og 140.50 í heildarstig.
Þetta skilaði þeim keppnisrétt á Evrópumeistaramótinu í parakeppni á listskautum sem fer fram í Tallin, Eistlandi, 28.janúar - 2.febrúar 2025.
Parið hafnaði í 3.sæti á mótinu.
Fyrstu verðlaun í paraskautun fyrir Ísland.
Íslandsmeistarar 2024
Íslandsmeistaramót ÍSS 2024 fór fram í Skautahöllinni í Egilshöll.
Íslandsmeistarar ÍSS 2024 eru;
Senior Pair:
Júlía Sylvía Gunnarsdóttir & Manuel Piazza
Senior Women:
Lena Rut Ásgeirsdóttir
Junior Women:
Sædís Heba Guðmundsdóttir
Advanced Novice Girls:
Elín Katla Sveinbjörnsdóttir
Æfingabúðir í desember
Æfingabúðir fyrir afrekshópa voru haldnar í beinu framhaldi af Íslandsmeistaramóti, fóru þær fram í Skautahöllinni í Laugardal.
Við fengum að þessu sinni til okkar skautadrottninguna Ashley Wagner.
Það var bæði gaman og krefjandi fyrir skautarana að fá að vinna með Ashley. Hún býr yfir mikilli reynslu sem hún gat miðlað af til skautaranna ásamt því að vera með krefjandi og skemmtilega ístíma.
Í stuttum æfingabúðum er mikið álag á þátttakendur. Útkoman er samt sem áður góð reynsla og ný sýn á komandi verkefni.
Skautarar ársins 2024
Skautasamband Íslands hefur valið skautara ársins 2024.
Að þessu sinni var reglugerðum breytt og viðurkenningar veittar í öllum þeim greinum sem tilheyra skautum, þar sem stjórn þótti skautarar hafa skarað fram úr á árinu.
Skautasamband Íslands hefur valið Júlíu Sylvíu sem skautakonu ársins 2024. Þetta er í annað sinn sem hún hlýtur viðurkenninguna.
Fyrri hluta ársins keppti Júlía Sylvía í flokki Senior Women, fullorðinsflokki kvenna.
Hún byrjaði árið með keppni á Reykjavík International Games, RIG. Þar varð hún fyrsti íslenski skautarinn til þess að vinna sér inn gullverðlaun á alþjóðlegu móti í fullorðinsflokki. Hún sigraði með 128.28 í heildarstig.
Síðar á önninni keppti hún á Norðurlandamótinu, sem fram fór í Borå í Svíþjóð. Þar hafnaði hún í 9. sæti með 120.98 stig sem eru hæstu stig sem íslenskur skautari hefur fengið á Norðurlandamóti.
Á vormánuðum vatt hún kvæði sínu í kross og fór í prufu sem paraskautari. Hún fluttist búferlum til Bergamo á Ítalíu þar sem hún skautar núna sem paraskautari með Manuel Piazza. Þau hafa keppt fyrir Íslands hönd síðan í nóvember og hafa náð markverðum árangri á þessum stutta tíma sem þau hafa skautað saman. Þau eru fyrsta parið sem keppir fyrir Ísland og Júlía Sylvía fyrsti Íslendingurinn sem keppir í paraskautun.
Skautasamband Íslands hefur valið Júlíu Sylvíu og Manuel sem skautapar ársins 2024.
Þetta er í fyrsta sinn sem þessi nafnbót er tilnefnd.
Júlía Sylvía (19) og Manuel (25) sem er frá Ortisei, Ítalíu, byrjuðu að skauta saman í júní sl. og eru nú búsett í Bergamo á Ítalíu þar sem þau æfa í Afreksmiðstöð Alþjóðlega skautasambandsins.
Parið keppti á sínu fyrsta móti 16.-17. nóvember sl. á NRW Trophy í Dortmund í Þýskalandi þar sem þau höfnuðu í 3. sæti með heildareinkunnina 140.50. Árangurinn skilaði þeim þátttökurétti á Evrópumeistaramóti í parakeppni með tæknieinkunnina 75.81. Ásamt því að þau fengu fyrstu verðlaun sem íslenskt par fær á alþjóðlegu móti.
Þau eru nýkrýndir Íslandsmeistarar í Senior Pairs, fyrsta parið sem keppir á Íslandsmeistaramóti.