#skatingiceland
30 ára afmæli Skautasambands Íslands

30 ára afmæli Skautasambands Íslands

ÍSS 30 ára þann 28. febrúar 2025

Þann 28. febrúar síðast liðinn fagnaði ÍSS 30 ára afmæli.
Í tilefni af því var boðið til fögnuðar í Skautahöllinni á Akureyri þann 1. mars sl.

Héldu þar nokkrir aðilar erindi ásamt því að Þóra Gunnarsdóttir færði sambandinu gjöf og Svava Hróðný Jóndsóttir, formaður, fór yfir sögu ÍSS og óskir um framtíðina.

Heiðursverðlaun ÍSS

Stjórn ÍSS ákvað að í tilefni af 30 ára afmæli ÍSS myndu 7 heiðurverðlaun ÍSS vera afhent.

Silfurverðlaun eru þau veitt til sjálfboðaliða sem hafa unnið yfir 10 ára starf fyrir sambandið sem og til skautara sem hafa rutt brautina og verið framúrskarandi á sínu sviði.

Sigurlaugu Árnadóttir.

Sigurlaug er fyrsti afreksskautari ÍSS á listskautum og var brautryðjandi í alþjóðlegri mótaþátttöku. Hún var Íslandsmeistari í Senior Women í 5 ár samfellt, árin 1998 - 2002. Hún var fyrst til þess að keppa á Norðurlandamóti og var meðal annars fyrst íslenskra skautara til þess að lenda tvöfaldan Axel.

Sigurlaug var fyrsti skautarinn til þess að fá útnefninguna Skautakona ársins og hlaut hún tilnefninguna þrjú ár í röð.

Hún var frábær fyrirmynd yngri skautara og ruddi brautina fyrir þá sem á eftir henni komu.

Kristín Harðardóttir

Kristín vann mikið og ötult starf í uppbyggingu samhæfðs skautadsns, synchro, á Íslandi. Hún var fyrirliði fyrsta Senior liðsins á Íslandi þar sem að hún leiddi liðið á fjölmörg alþjóðleg mót, þar á meðal á tvö heimsmeistaramót. Það var í fyrsta sinn sem Ísland átti fulltrúa á stórmóti ISU. Gaman er að segja frá því að þetta var einnig í fyrsta sinn sem íslenskt kvennalið keppti á heimsmeistaramóti, þvert á allar íþróttagreinar.

Kristín var valin Skautari ársins árið 2002.

Ásamt því að skauta sjálf í synchro liði þá sá Kristín einnig um þjálfun yngri liða og stuðlaði þannig að áframhaldandi þróun íþróttarinnar á Íslandi og var mikil fyrirmynd þeirra þjálfara sem á eftir henni komu.

Gullverðlaun eru veitt þeim sem unnið hafa ötult starf í yfir 20 ár fyrir skautaíþróttir á Íslandi.

Helga Olsen

Helga hefur unnið að margvíslegu starfi fyrir ÍSS 25 ár.
Ber þá helst að nefna nefndarstörf, þjálfaramenntun og þróun á skautaþjálfun fyrir einstaklinga með fötlun.

Sunna Björk Mogensen

Sunna hefur unnið fyrir ÍSS í hinum ýmsu störfum í 20 ár.
Lengst af sem starfsmaður á dómarapanel í stöðu DRO, en hún er fyrsti fulltrúi ÍSS með ISU réttindi. Hún hefur einnig komið að þjálfun og þá aðallega í synchro og vinnur að endurvakningu greinarinnar á Íslandi.

Sólveig Dröfn Andrésdóttir

Sólveig hefur sinnt nefndar- og þjálfunarstörfum fyrir ÍSS í 21 ár. Lengst af í afreksmálum og er hún sjúkraþjálfari afrekshópa ÍSS.

María Fortescue

María hefur unnið í fjölmörgum störfum og verkefnum fyrir ÍSS í 20 ár. Störfin eru margvísleg eins og þau eru mörg. Nefndarstörf, vinnuhópar, stjórnarseta og starfsmaður á dómarapanel með alþjóðleg réttindi dómara og yfirdómara. Hún starfar núna sem framkvæmdastjóri ÍSS.

Svava Hróðný Jónsdóttir

Svava Hróðný hefur unnið fyrir ÍSS í 25 ár. Fyrst um sinn sem starfsmaður á dómarapanel með landsréttindi sem bæði dómari og yfirdómari. Hún kom að uppbyggingu nefnda ÍSS með vinnu í dómara- og tækniráði ásamt fjölmörgum vinnuhópum og verkefnum bæði fyrir ÍSS sem og Special Olympics. Ásamt því að sitja í stjórn starfar hún sem Verkefna- og afreksstjóri ÍSS.

Svava Hróðný er sitjandi formaður ÍSS og hefur setið í stjórn ÍSS í 9 ár, þar af 5 sem formaður.

Ávarp formanns í tilefni af 30 ára afmælinu

Skautasamband Íslands (ÍSS) var stofnað árið 1995 og var í upphafi skipt upp í hlaupadeild og hokkídeild. Hlaupadeild Skautasambandsins hafði yfirumsjón með listskautum, auk þess sem gert var ráð fyrir að skautahlaup félli undir þá deild líka. 

Í nóvember 2004 átti sér stað aðskilnaður með stofnun Íshokkísambands Íslands. Þær greinar sem áður féllu undir listhlaupadeild tilheyrðu Skautasambandinu áfram en íshokkí fluttist yfir til hins nýja landssambands.

En í raun er saga skautaiðkunar á Íslandi mun lengri. Við eigum heimildir allt aftur til ársins 1909 þar sem keppt var í bæði skautahlaupi og listskautum all aftur til ársins 1943.

Keppt var reglulega í skautahlaupi á þeim tíma, en mun sjaldnar á listskautum, eða allt til ársins 1980. 

Með tilkomu vélfrystra skautasvella og síðar yfirbyggingu yfir þau svell hefur framþróun verið mjög mikil. En staðan í dag er þannig að félögin eiga í raun erfitt með að auka iðkendafjölda og bjóða upp á fjölbreytni í æfingum þar sem að allir ístímar eru þéttsetnir og eftirspurn mun meiri en framboðið er.

Í febrúar árið 2000 fékk hlaupadeild Skautasambandsins tímabundna aðild að Alþjóðlega Skautasambandinu (ISU). Til þess að fá fulla aðild þá þurfti deildin að uppfylla þær kröfur sem ISU setti en árið 2002 fékk sambandið fullgilda aðild og hefur verið aðili síðan. Frá þeim tíma hafa orðið miklar framfarir í listskautum á Íslandi og mikið uppbyggingarstarf átt sér stað. Með aðild hafa einnig opnast tækifæri til þátttöku erlendis sem áður voru ekki möguleg.

Í lok ársins 2019 voru aðildarfélög ÍSS orðin fjögur: Skautadeild Fjölnis, sem áður var Skautafélagið Björninn, Skautafélag Akureyrar, Skautafélag Reykjavíkur og Skautadeild Asparinnar, sem er félag án aðgreiningar.

Á þessum í raun stutta tíma, sem sambandið hefur veirð til, hafa íslenskir skautarar náð markverðum árangri og rutt brautina fyrir þá sem á eftir hafa komið og munu koma.

Ísland hefur átt fulltrúa á tveimur heimsmeistaramótum í synchro, á heimsmeistaramóti unglinga og á Evrópumóti í einstaklingsskautun og nú síðast par á Evrópumeistaramóti.

ÍSS hefur einnig einbeitt sér að því að mennta starfsfólkið sitt.
ÍSS hefur átt 4 alþjóðlega dómara, 1 alþjóðlegan tæknisérfræðing, 1 alþjóðlegan yfirdómara, 1 alþjóðlegan tæknistjórnanda, 1 alþjóðlegan DVO og einn DVO með ISU-réttindi.

Á síðustu árum hafa einnig verið miklar framfarir í þjálfaramenntun og erum við stolt af því að sjá að æ fleiri íslenskir skautarar sækja sér þjálfaramenntun og teljum við menntastig þjálfara vera á góðum veg, en alltaf má gera betur.

Rekstur sambandsins sjálfs hefur einnig þróast mikið. Síðustu 10 ár hefur verið allavega einn starfsmaður á launum á skrifstofunni. Það gerir starf sambandsins mun faglegra og stöðugleika verið komið á verkferla og vinnubrögð.

Með tilkomu fagnefnda erum við fullviss um að þeir sérfræðingar sem við eigum innan skautasamfélagsins komi að stefnu og regluverki sambandsins.

En þessi grasrótarvinna sem hefur þróast út í faglegt starf á afreksstigi væri ekki möguleg nema með mikilli samvinnu ólíkra aðila sem allir starfa í sjálfboðavinnu.
Við erum mjög heppin með stóran hóp sjálfboðaliða sem hefur gefið mikið af sér og öll verkefni, stór sem smá, hafa stuðlað að framþróun skautaíþrótta á Íslandi og heldur áfram að gera það.

Þrátt fyrir að samfélagið okkar sé í raun lítið, á alþjóðlegan mælikvarða, þá höfum við haldið stór alþjóðleg mót. Norðurlandamótið er haldið með reglulegu millibili á Íslandi. RIG var haldið í 17 samfelld ár, þar af 10 á lista ISU yfir viðurkennd alþjóðleg mót. Og síðasta haust héldum við fyrsta Northern Lights Trophy sem gekk vonum framar og verður gaman að fylgjast með þróun og stækkun mótsins.

Árið 2011 var skautadeild asparinnar stofnuð. Öspin er íþróttafélag án aðgreiningar og er markmiðið að standa fyrir skautaæfingum, með sem fjölbreyttustum hætti, iðkendum til heilsubótar og ánægju og þátttöku í íþróttamótum, þar sem hæfni hvers og eins nýtur sín sem best.

Félagið hefur vaxið ört og er það ein stærsta skautadeild Special Olympics alþjóðlega. Iðkendur félagsins keppa bæði innanlands og erlendis og taka meðal annars þátt á Special Olympics winter games. Fulltrúar félagsins hafa einnig unnið mikið að uppbyggingu og framþróun skautamála fyrir fatlaða einstaklinga. Við eigum tvo fulltrúa í alþjóðanefnd SO International um dómaramál þar sem dómarakerfið var loksins uppfært úr gamla 6.0 kerfinu yfir í IJS dómarakerfið sem við þekkjum betur innan listskauta í dag. Einnig hefur deildin, og sérfræðingar sem tengjast Special Olympics á Íslandi, unnið að uppbyggingu Adaptive Skating alþjóðlega. Áður höfðu íslenskir sérfræðingar unnið að dómarakerfi sem ennþá er notað í Inclusive Skating verkefninu.

Núna á þessum tímamótum erum við ennþá í uppbyggingarstarfi. 

Afreksskautarar eru núna á mun hærra stigi en var og heldur sú þróun áfram með stuðningi við alla skautara og sérstakt utanumhald um hæfileikamótunina.

Mikil vinna hefur verið lögð í endurvakningu skautahlaups á Íslandi. Þessi vinna er áframhaldandi og er keyrð áfram af eldmóð sjálfboðaliða.

Það er mikil ánægja að sjá að áhugi hefur verið vakinn fyrir synchro að nýju. Og er það von mín að sú grein haldi áfram að dafna. En þessi grein er sú besta innan listskauta til þess að sporna við brottfalli eldri iðkenda.

Það hefur ekki farið framhjá neinum að við eigum núna, í fyrsta sinn, skautapar sem keppir fyrir Íslands hönd. Þau hafa náð markverðum árangri og er mikilvægt að halda stuðningi áfram við allt afreksstarf til þess að við getum átt möguleika á því að styðja við alla þá skautara sem ná langt í skautaíþróttum.

Ég átti samtal í vetur við þýskan dómara sem sagði mér frá íslenskum skautara, Andreas Sigurðsson, sem keppti lengi vel í paraskautun fyrir Þýskaland. Áhugavert að heyra af því og eigum við eflaust margar sögur um Íslendinga sem skautað hafa erlendis.  

Þegar litið er yfir þessi 30 ár hafa náðst miklar framfarir, sérstaklega eftir yfirbyggingu skautahallanna. Við horfum bjartsýn fram á veginn og stefnum ótrauð áfram.
Það er mikilvægt fyrir okkur að halda stöðugleikanum í afreksmálum og ná enn meiri árangri, eins og t.d. að Ísland eiga fast sæti á stórmótum. Með framþróun í takt við það sem hefur verið síðustu árin eigum við ekki langt að bíða þar til að við sjáum íslenska skautara keppa á Ólympíuleikum.
Þróunarverkefnin munu halda áfram þar sem við styðjum við uppbyggingu á æfingum og keppni í skautahlaupi og synchro.
Við viljum líka fylgja eftir vinnu okkar sem stuðlar að og hvetur til uppbyggingar á frekari mannvirkjum. Það eru mörg verkefni á döfinni sem vonandi fá greitt gengi.

Það sem við viljum sjá er að allir Íslendingar fari á skauta, bæði í skautahöllum sem og úti á náttúruís. Hér áður fyrr var mjög rík skautamenning á Íslandi. Skautað var á Melavellinum og Tjörninni í Reykjavík reglulega og á pollinum á Akureyri. Þetta viljum við endurvekja og koma skautaiðkun inn í lýðheilsu og hreyfingu almennings.
Þegar viðrar til viljum við að allir fari út að skauta á vötnum og ám um land allt.

Til hamingju ÍSS með 30 ára afmælið
Með von um bjarta framtíð skautaíþrótta á Íslandi

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Translate »