#skatingiceland
Vormót ÍSS 2025

Vormót ÍSS 2025

Vormót ÍSS fór að vanda fram í Skautahöllinni á Akureyri.
Mótið fór fram dagana 28. febrúar - 2. mars sl.

Til keppni voru mættir 120 skautarar úr öllum fjórum aðildarfélögum ÍSS. En á vormóti er keppt í keppnislínu ÍSS, félagalínu og SO/AS keppnisflokkum. Auk þess að samhliða mótinu var keppt í Short Track skautahlaupi (skautaat).

Allir keppendur á mótinu stóðu sig mjög vel og sýndu frábær tilþrif, en vormótið er alltaf skemmtilegt mót sem hefur ýmsa sérstöðu. Síðasta mót keppnistímabilsins þar sem einhverjir skautarar nýta tækifærið til þess að spreyta sig í nýjum keppnisflokki, einhverjir eru að keppa í fyrsta sinn og aðrir eru að taka þátt bæði í listskautum og skautahlaupi.
Einnig eru Bikarmeistarar ÍSS krýndir í lok móts ár hvert og myndast mikil spenna og eftirvænting eftir þeirri krýningu.

Að þessu sinni setti veðrið strik í reikninginn, eins og svo oft áður.
Keppendur komust á milli landshluta, enda eru liðsstjórar, foreldrar og forráðamenn allra félaganna þaulvön því að þurfa að aðlaga ferðaáætlanir vegna veðurs.
Það sama var ekki uppi á tengingum er varðar erlendu sérfræðingana sem komu með flugi til Keflavíkur og þurftu að fljúga frá Reykjavík norður. Svo fór að dómarapanell náði ekki að koma norður fyrr en seinni partinn á laugardegi.
Sem betur fer eru mótshaldarar og starfsfólk ÍSS fólk sem tekur af skarið og lætur hlutina ganga upp.
Með góðu samráði við félögin og þjálfara þeirra var hægt að aðlaga dagskrá mótsins þannig að þeir sérfræðingar sem náðu ekki að koma fyrr en seint gátu samt náð að vinna sína vinnu, en þeir keppnisflokkar sem þegar voru með dómarapanel á staðnum voru færðir fyrr um daginn. Frábær samvinna og aðlögunarhæfni allra á staðnum og eiga allir hrós skilið fyrir að hjálpast að við að framkvæma mótið.

Veðrið var samt ekki búið að afgreiða mótið alveg strax því að von var á slæmi veðri upp úr hádegi á sunnudegi og var útlit fyrir að lokað yrði fyrir heiðar ásamt því að öll flug voru felld niður. Það sá ekki fyrir endann á veðrinu fyrr en seinni partinn á mánudegi og voru þá góð ráð dýr.
Mótið var klárað með glæsibrag en verðlaunaafhending var ekki eins og vanist hefur verið heldur var flýtt fyrir framkvæmd. En allir fengu sín verðlaun, hvort sem þeir höfðu þegar lagt af stað heim til sín eða ekki.
Svo fór að einhverjir keyrðu heim á einkabílum, rútur lögðu af stað snemma og voru tvö félög sem ákváðu að gista á leiðinni í staðinn fyrir að hætta sér í krókaleiðir yfir Bröttu brekku. Enn aðrir tóku þá ákvörðun að verða eftir og eiga auka dag á Akureyri í rólegheitum.
Allir erlendu sérfræðingarnir náðu til Reykjavíkur í tæka tíð fyrir flugin sín aftur heim.

Um leið og við hjá Skautasambandi Íslands þökkum fyrir frábært Vormót þá viljum við þakka öllu skautasamfélaginu fyrir frábært skautatímabil og við hlökkum til þess næsta.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Translate »