Íslandsmeistaramót 2024
Íslandsmeistaramót ÍSS og Íslandsmót barna og unglinga fer fram Í Egilshöll nú um helgina. Skráðir eru um 40 keppendur frá Skautafélagi Akureyrar, Skautafélagi Reykjavíkur og Ungmennafélaginu Fjölni. Keppt verður um Íslandsmeistaratitil í stúlkna, unglinga og fullorðinsflokkum.
Í fyrsta sinn mun par hreppa titilinn en þau Júlía Sylvía Gunnarsdóttir og Manuel Piazza hófu keppni fyrir hönd Íslands nú í nóvember og hafa nú þegar náð lágmörkum inn á Evrópumót sem þau munu keppa á í Tallin í lok Janúar 2025. Júlía Sylvía Gunnarsdóttir er ríkjandi Íslandsmeistari í fullorðinsflokki en ljóst er að hún mun ekki verja titil sinn í einstaklingskeppni.
Lena Rut Ásgeirsdóttir ríkjandi Íslandsmeistari í unglingaflokki mun nú keppa í fullorðinsflokki í fyrsta sinn og Sædís Heba Guðmundsdóttir, Íslandsmeistari í stúlknaflokki hefur einnig fært sig upp um flokk og keppir nú í unglingaflokki en hún tók þátt í Junior grand prix mótaröðinni fyrir hönd Íslands nú í haust. Því er ljóst að nýjir meistarar verða krýndir í öllum flokkum.
Klukkan 12:30 á laugardaginn mun ÍSS standa fyrir kynningu og spjallfundi fyrir foreldra/forráðamenn. Erindið heldur Ashley Wagner sem keppti fyrir hönd Bandaríkjanna og hefur unnið til fjölda verðlauna m.a. á Heimsmeistaramóti og Ólympíuleikum. Við hvetjum öll eindregið til að mæta á þennan einstaka viðburð!
Í lok móts mun ÍSS svo veita viðurkenningar fyrir þá skautara sem skarað hafa fram úr á árinu.
Frítt er inn á mótið og hlökkum við til að sjá sem flesta!
Dagskrá má finna hér.