#skatingiceland
Bikarmót fyrri keppnisdagur

Bikarmót fyrri keppnisdagur

Bikarmót ÍSS 2017 – fyrri keppnisdagur
Bikarmót ÍSS fer fram á skautasvellinu í Laugardalnum dagana 13.-15. október. Keppendur koma frá Skautafélagi Reykjavíkur (SR), Skautafélagi Akureyrar (SA) og Skautafélaginu Birninum (SB). Fyrri keppnisdadgurinn hófst með keppni í Chicks. Sjö keppendur tóku þátt í þessum flokki og segja má að SA hafi komið, séð og sigrað en þrír stigahæstu keppendurnir komu þaðan. Í fyrsta sæti var Indíana Rós Ómarsdóttir með 18,66 stig. Í öðru sæti Sædís Heba Guðmundsdóttir með 17,19 stig og í þriðja sæti varð Berglind Inga Benediktsdóttir með 16,37 stig. Allar keppa þær fyrir hönd SA. Sigurganga SA hélt áfram í næsta keppnisflokki, Cubs, en þar voru 10 keppendur. Í þeim flokki varð Katrín Sól Þórhallsdóttir frá SA stigahæst með 24,74 stig. Á hæla hennar með 23,76 stig kom Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir einnig frá SA og í þriðja sæti varð Sara Kristín Pedersen frá SB með 18,90 stig. Í Basic Novice A voru 16 keppendur og þar eru SR stúlkurnar sem höfnuðu í efstu tveim sætunum með tvöfaldan Axel í prógrömmunum sínum, sem er mjög ánægjulegt að sjá. Í Basic Novice A varð Eydís Gunnarsdóttir frá SR stigahæst með 31,78 stig. Herdís Heiða Jing Guðjohnsen frá SR tók silfrið með 29,98 stig og í þriðja sæti varð Júlía Rós Viðarsdóttir frá SA með 29,86 stig.

Að lokinni verðlaunaafhendingu fyrir þessa flokka hófst fyrri keppnisdagur hjá stúlkum í keppnisflokkunum Advanced Novice, Junior og Senior. Á fyrri keppnisdegi fer fram keppni í stuttu prógrammi og eftir daginn er staðan þannig að af sjö keppendum í Advanced Novice er Viktoría Lind Björnsdóttir frá SR efst með 29,29 stig. Í öðru sæti er Rebekka Rós Ómarsdóttir frá SA með 26,87 stig og í þriðja sæti er Aldís Kara Bergsdóttir frá SA með 25,57 stig. Keppni í Junior er hörð og aðeins eru 0,36 stig sem skilja að keppendur í fyrsta og öðru sæti. Sex stúlkur etja kappi í þessum flokki og er Marta María Jóhannsdóttir frá SA efst með 33,95 stig en hún keppir í fyrsta sinn í þessum keppnisflokki. Í öðru sæti er Kristín Valdís Örnólfsdóttir SR með 33,59 stig og í þriðja sæti er Herdís Birna Hjaltalín SB með 30,37 stig. Það stefnir í spennandi keppni hjá þessum tveimur flokkum á seinni degi þegar stúlkurnar sýna frjálst prógram enda stutt á milli keppenda og ljóst að dagsformið getur skipt sköpum.

Í Senior var aðeins einn keppandi, Eva Dögg Sæmundsdóttir frá SB. Skautaði hún fallegt prógram sem skilaði henni 24,23 stigum.

One comment

  1. Sæl öll

    Tók eftir þessu mati fréttaritara sem er að sjálfsögðu alveg rétt:
    ,,Í Basic Novice A voru 16 keppendur og þar eru SR stúlkurnar sem höfnuðu í efstu tveim sætunum með tvöfaldan Axel í prógrömmunum sínum, sem er mjög ánægjulegt að sjá. “, en jafnframt vonandi margt annað ánægjulegt að sjá og finna hjá svona flottum hópi iðkennda.

    Kveðja, Torfi

    Torfi Ólafur Sverrisson

Comments are closed.

Translate »