#skatingiceland
Skautaárið 2020 – Annáll ÍSS

Skautaárið 2020 – Annáll ÍSS

Skautasamband Íslands sendir skauturum, þjálfurum, aðstandendum, félögum og landsmönnum öllum óskir um farsælt komandi ár og þakkir fyrir samstarfið á árinu sem er að líða.

Í lok árs er tilefni til þess að líta yfir farinn veg og rifja upp þann árangur sem skautarar okkar hafa sýnt á árinu. Á ári sem þessu sem nú senn fer að ljúka voru margs konar ófyrirséðar hindranir á vegi íþróttamanna á öllum sviðum. En margt var gott og mikill lærdómur í því að hugsa út fyrir boxið og vinna að nýjum og breyttum markmiðum.

Á árinu sem er að líða voru ótal met slegin og ný skref tekin á öllum vígstöðum. Það má með sanni segja að tímabilið hafi verið, þrátt fyrir þær aðstæður sem ríkja í heiminum, framfaratími innan listskautaíþróttarinnar á Íslandi. Íslenskir skautarar hafa staðið sig vel bæði á innlendum og erlendum vettvangi og verður spennandi að sjá hvað nýtt ár ber í skauti sér.

Íslenska skautafjölskyldan getur nú með stolti sagt frá því að Ísland átti fulltrúa á Heimsmeistaramóti unglinga í fyrsta sinn. Aldís Kara var flottur fulltrúi á mótinu. Hún stóð sig með prýði og sýndi það og sannaði að hún átti vel heima á mótinu.

Þeir sem vinna, og hafa unnið, með ÍSS að afreksmálum og hæfileikamótun sjá nú uppskeru mikillar vinnu og mun áframhaldandi vinna að þessum málefnum hjálpa framþróun íþróttarinnar og styrkingu innviðanna.

Nú horfum við til framtíðar með ný og stærri markmið með tilhlökkun og eldmóð.

Stigamet á RIG 2020

Reykjavíkurleikarnir (RIG) fóru fram í Skautahöllinni í Laugardal dagana 24. – 26. janúar.

Þrátt fyrir hnökra í byrjun fór mótið vel af stað. Það var þó nokkuð af erlendum keppendum á mótinu sem kepptu við okkar fremsta fólk í íþróttinni. Það hefur sýnt sig að mótið er mikilvægur liður í keppnisdagskrá íslenskra skautara þar sem þeir frá tækifæri til þess að keppa við erlenda skautara ásamt því að reyna við alþjóðleg lágmörk á heimavelli.

Á mótinu í ár var Junior Ladies flokkurinn mjög sterkur og spennandi þar sem margir skautarar voru mættir til keppni. Aldís Kara Bergsdóttir setti stigamet í stutta prógramminu með 45.25 stigum, þar af 27.19 tæknistig, og staðfesti hún aftur ISU lágmörkin hennar frá fyrra ári. Marta María Jóhannsdóttir var efst íslensku keppendanna í Junior Ladies í fjórða sæti. Júlía Rós Viðarsdóttir var efst íslensku keppendanna í Advanced Novice í fjórða sæti.

Norðurlandamótið 2020 – Aldís Kara með ISU lágmörk í frjálsu prógrammi

Norðurlandamótið var að þessu sinni haldið í Stavanger í Noregi. Mótið fór vel fram og var mikil samheldni í hópnum. Má því þakka frábærri fararstjórn sem var í höndum Nadiu Margrétar Jamchi. Með í ferðinni voru tveir þjálfarar, þau Darja Zajcenko og Guillaume Kermen. Á mótinu störfuðu einnig dómara og tæknifólk frá Íslandi, þær María Fortescu, Halla Björg Sigurþórsdóttir og Sunna Björk Mogensen.

Sjö keppendur kepptu fyrir Íslands hönd og stóðu allir keppendur sig vel á mótinu. Ber þar helst að nefna að Júlía Rós Viðarsdóttir fékk 79.64 stig í heildina fyrir bæði prógröm og eru það hæstu stig sem íslenskur skautari í Advanced Novice hefur fengið á Norðurlandamóti. Ásamt því að Aldís Kara vann sér inn keppnisrétt á Heimsmeistaramót Unglinga (ISU Junior Worlds), fyrst íslenskra skautara til þess að ná báðum lágmörkum Alþjóðaskautasambandsins.

Á Norðurlandamótinu 2019 var reglum um Junior flokka breytt á þann veg að flokkarnir eru nú opnir öllum ISU þjóðum, líkt og í Senior flokkum. Þessi breyting hefur í för með sér að stig sem skautarar vinna sér inn á Norðurlandamótinu gilda sem lágmörk til þátttöku á ISU Junior Worlds (Heimsmeistaramót unglinga).

Segja má með sanni að þetta hafi verið afskaplega farsæl breyting fyrir íslenska keppendur.

ISU Junior World Championships

Aldís Kara Bergsdóttir keppti fyrir Íslands hönd á Heimsmeistaramóti Unglinga í listskautum sem fram fór í Tallin í Eistlandi dagana 2. til 8. mars sl. Er þetta í fyrsta skiptið sem íslenskur einstaklingsskautari keppir á Heimsmeistaramóti í listskautum.

Skautarar geta eingöngu unnið sér inn stig sem gilda til þátttöku á ISU meistaramóti á mótum sem skráð eru á keppnislista ISU og viðurkennd af þeim. Það eru svokölluð Alþjóðleg mót af ISU lista og eru strangar kröfur sem gilda um samsetningu dómarapanels og lágmarksfjölda skráðra keppenda á mótinu. Íslenskir keppendur þurfa því að fara erlendis til að reyna við lágmarksstigin en eina mótið á Íslandi sem gildir til stiga (sé lágmarks fjölda keppenda náð) er Reykjavík International Games (RIG).

Ná þarf lágmarks tæknistigum í bæði stutta og frjálsa prógraminu en ekki þarf að gera það á sama mótinu. Lágmarks tæknistig (TES) í Junior Ladies eru 23.00 stig í stuttu prógrami og 38.00 stig í frjálsu prógrami.

Keppt var með stutt prógram á föstudegi og hafði Aldís dregið rásnúmerið 19, en 48 keppendur voru skráðir til leiks í greininni. Sýnt var beint frá keppninni á Youtube síðu Alþjóðaskautasambandsins ISU og fylgdist íslenska skautafjölskyldan spennt með um allt land. Reglur eru þannig að af þeim 48 sem hefja leik komast 24 stigahæstu eftir stutta prógramið áfram í frjálsa prógramið sem fór fram á laugardag.

Aldís Kara sýndi sannarlega glæsilega frammistöð í þessari frumraun hennar á Heimsmeistarmóti Unglinga sem um leið er frumraun Íslands á mótinu. Stigin sem hún fékk fyrir voru 44.85 sem skilaði henni 35. sæti, af 48 keppendum, og jafnaði hún næstum því stigamet sitt frá Reykjavik International Games í janúar s.l. Þetta nægði þó ekki til að komast í frjálsa prógramið þar sem skautararnir voru hver af annarri að fá há stig og var cut-off inn í 24 kvenna hópinn um 50 stig.

Þetta er frábær byrjun fyrir Aldísi á Heimsmeistaramóti og gríðarlega stórt skref í íslenskri skautasögu.

Bikarmeistarar ÍSS

Fyrstu Bikarmótaröð ÍSS átti að ljúka á Vormótinu sem fara átti fram á Akureyri. Mótið var fellt niður og voru því Bikarmeistarar krýndir á Haustmóti ÍSS í september. Bikarmeistarar ÍSS árið 2020 eru Skautafélag Akureyrar.

Bikarmótaröð ÍSS 2020-2021 hefur tekið á sig högg í ljósi aðstæðna, en Stjórn tók þá ákvörðun að öll mót sem ÍSS heldur á tímabilinu munu gilda til bikarmótaraðarinnar.

21. Skautaþing Skautasambands Íslands

Skautaþinið fór að þessu sinni fram í september. En í ljósi ástandsins tók stjórn þá ákvörðun um að fresta þinginu þar til að aðstæður til þess að boða til þings væru betri.

Á þinginu hlaut Þóra Gunnarsdóttir viðurkenningu sjálfboðaliða fyrir óeigingjarnt framlag sitt til Skautasambandsins. Má þar helst nefna vinnu hennar að mótamálum og stöðu hennar sem fjölmiðlatengill.

Guðbjört Erlendsdóttir lagði af störfum sem formaður stjórnar ÍSS eftir yfir fjögurra ára setu. Var henni veitt Gullmerki ÍSS að því tilefni. Svava Hróðný Jónsdóttir var kosin nýr formaður, en hún hefur sinnt stöðu varaformanns síðustu fjögur ár.

Skautakona ársins 2020

Aldís Kara Bergsdóttir úr Skautafélagi Akureyrar var valin skautakona ársins 2020.

Kjörið á íþróttamanni ársins fór fram með öðruvísi sniði en vant er. Kjörið sjálft fór fram í beinni útsendingu á RÚV en afhending bikaranna til einstakra íþróttamanna var mismunandi eftir íþróttagreinum.

Aldís Kara tók á móti viðurkenningu ÍSS ásamt bikarnum við lok jólasýningar LSA.

Aldís Kara er kappsfullur íþróttamaður sem leggur sig fram í íþrótt sinni. Hún er yngri iðkendum góð fyrirmynd bæði í framkomu og viðhorfi til íþróttarinnar. Hún er því vel að þessum titli komin.

Að lokum

Það ástand sem nú ríkir í heiminum hefur ekki farið framhjá neinum. Skautasamband Íslands hefur ekki farið varhluta af því. Fyrstu merki Covid-19 á starf sambandsins sýndi sig á Heimsmeistaramóti unglinga þar sem að allir þátttakendur og fylgdarlið þurftu að fara í gegnum heilbrigðisskoðun við komu ásamt því að hitamælingar voru reglulegar á mótsstað. Sem betur fer hafa ekki verið nein smit rakin til mótsins.

Aflýsa þurfti Vormóti ÍSS 2020 sem fara átti fram á Akureyri í mars ásamt því að Skautaþingi var frestað. Æfinga- og keppnisbann ríkti á Höfuðborgarsvæðinu og síðar á landinu öllu sem varð til þess að Íslandsmóti ÍSS var aflýst. Við vonumst til þess að geta afhent titlana á næsta móti Skautasambandsins.

Alþjóðaskautasambandið (ISU) hefur fellt niður allt keppnistímabilið í Unglingaflokkum (Junior) og eingöngu örfá mót hafa verið haldin í Fullorðinsflokkum (Senior). Eina stórmótið sem ennþá er á dagskrá er Heimsmeistaramótið sem fara á fram í Stokkhólmi í Svíþjóð. Fylgst er náið með framþróun veirunnar og áhrifa hennar á ferðalög og iðkun íþrótta og mun ákvörðun um niðurfellingu, ef svo fer, ekki vera tekin nema með stuttum fyrirvara. Öllum möguleikum um mót í lok tímabils er þó haldið opnum. Sérstaklega því að við erum að fara inn í Ólympíuár strax næsta haust.

Þó svo að enginn geti sagt fyrir um framhaldið horfum við björtum augum til næsta tímabils og tækifæranna sem þá bjóðast.

Stjórn ÍSS vill koma á framfæri þakklæti til allra sem komið hafa að vinnu ÍSS síðastliðið ár; Sjálboðaliðar, nefndarmenn, starfsmenn, keppendur, þjálfarar, stjórnir félaga, foreldrar og aðrir aðstandendur hafa hjálpast að við að gera umhverfi íþróttarinnar sem best og heilbrigðast og er það von stjórnar að sú vinna muni halda áfram til enn betri vega.

Translate »