Komið sæl kæra skautafjölskylda
Mig langar að stuttlega kynna mig fyrir ykkur í stórfjölskyldu minni og þau verkefni sem ég hef tekið að mér fyrir okkur öll.
Ég hóf störf sem sjálfboðaliði í skautamálum fyrir 20 árum þegar dætur mínar æfðu með SR. Eins og margir aðrir aðstoðaði ég á mótum og sýningum fyrst um sinn og síðar í stjórn. Yngri dóttir mín stundaði skauta til 25 ára aldurs og hætti í hitteðfyrra m.a. vegna covid en hún hefur verið búsett í Kanada við skautaiðkun frá því hún var 16 ára. Þar hef ég einnig verið sjálfboðaliði enda var það skylda og gerði maður það ekki þurfti að greiða „sekt“.
Síðan 2008 hef ég einbeitt mér að störfum fyrir skautafjölskylduna í heild með hinum ýmsu störfum og hlutverkum fyrir Skautasambandið. Ég hef setið í stjórn, veitt tveimur nefndum formennsku, unnið í vinnuhópum, á mótum, í sérverkefnum og ekki síst sem mótsstjóri bæði ÍSS móta og RIG fyrir Skautasambandið. Núna hef ég tekið að mér mótsstjórn á Norðurlandamótinu sem haldið verður á Reykjavíkurleikunum 1. – 5. Febrúar 2023.
Nú spyrja margir; Af hverju ertu að halda áfram sjálfboðaliðastörfum ef dóttir þín er hætt að skauta?
Svarið er margþætt:
Af því ég brenn fyrir skautaíþróttina og vil styrkja hana og styðja.
Af því á undan mér komu margir sjálfboðaliðar sem gerðu dætrum mínum kleift að finna sig innan fallegrar íþróttar og vil gera það sama fyrir komandi kynslóðir skautara.
Af því sjálfboðaliðastörf eru ekki um okkar eigin börn heldur öll þau börn er iðka íþróttina á landinu.
Af því það er mikilvægt að íþróttin geti gripið til fjölbreytts hóps fólks sem kemur hlaðið reynslu, gleði og fórnfýsi til starfa.
Að við séum þátttakendur í alþjóðlegu samstarfi og höfum aðgengi að fagfólki erlendis frá sem hefur áhuga á að aðstoða okkur við uppbygginu hér heima.
Verkefnið að vera mótsstjóri á NM@RIG23 er stórt. Meira að segja gríðarstórt. Mótið er haldið hér á 5 ára fresti og þarf báðar skautahallirnar í Reykjavík til verkefnisins. Við getum átt von á allt að 200-250 keppendum, þjálfurum, liðsstjórum og fylgdarliði til Íslands og full dagskrá verður alla dagana í höllinni.
Mótið er einstakt tækifæri fyrir skautaiðkendur og unnendur á Íslandi til að berja keppendur í heimsklassa augum. Tækifæri sem ekki margir fá og þaðan af síður á heimagrundu. Við höfum einnig kjörið tækifæri að sýna gestum okkar að við erum alvöru þáttakendur í alþjóðlegu skautasamstarfi og að þeir fari heim aftur með minningar frá fagmannlegu og vel skipulögðu móti.
Það gefur auga leið að ég get þetta ekki ein. Sem betur fer get ég gripið til margra góðra einstaklinga sem hafa veitt mér aðstoð áður, en ég þarf svo miklu fleiri, eða um 100 manns, til að mótið gangi smurt.
Ég er hér að vinna fyrir börnin ykkar, öll börn og ungmenni sem iðka listskauta á Íslandi við að hlúa að og halda utanum íþróttagreinina þeirra. Þetta geri ég endurgjaldslaust af því mér finnst þau eiga það skilið að við hin fullorðnu hjálpum þeim að kynnast íþróttagrein sem á eftir að gefa þeim svo mikið og undirbúa þau vel fyrir framtíðina.
Hjálpaðu mér að hjálpa þeim.
Skráning sjálfboðaliða fer fram hér http://www.iceskate.is/2022/10/26/sjalfbodalidar-oskast/