Þá er þátttöku fyrsta Íslendingsins í listskautum á Háskólaleikunum, Universiade 2019, lokið. Eva Dögg Sæmundsdóttir skautaði stutta prógramið sitt í gær og fékk fyrir 22.32 stig. Í kvennakeppnina voru skráðar 36 konur frá 31 landi og var viðhaft útsláttarfyrirkomulag þar sem 24 stigahæstu komust áfram í frjálsa prógramið líkt og gert er á stóru ISU keppnunum. Stig Evu komu kenni í 32. sætið og dugðu því ekki til að hún fengi að sýna frjálsa prógramið sitt.
Mikill undirbúningur var hjá okkar konu fyrir þátttöku á leikunum en það þykir óvenjulegt að svo litlar sendinefndir komi á svona stóran viðburð enda mikil pappírsvinna og skráning fer fram strax á haustmánuðum. Reglurnar eru að keppendur þurfi að vera háskólanemendur frá viðurkenndri menntastofnum og í námi er leiðir að útskrift, diplómanámi eða hliðstæðu. Það er því í ærnu að snúast að sameina háskólanám með fullri íþróttaiðkun ásamt því að sjá um allan undirbúning og koma fram sem sendinefnd Íslands í ofanálag.
Eva hefur nýtt tímann í Rússlandi vel m.a. til æfinga en einnig hefur dagskráin verið þéttsetin af móttökum og viðtölum enda er mikill áhugi á þessum eina íþróttamanni Íslands á leikunum og jafnvel ekki allir sem eru með á hreinu hvar litla landið okkar er eða vita yfir höfuð að það sé til. Eva hefur kynnst mörgu fólki úr hinum ýmsu íþróttagreinum og er dugleg að sýna sig og sjá aðra því svona upplifun er skemmtilegust í hópi. Eva var í stúkunni í dag að horfa á frjálsa prógramið ásamt fleiri keppendum á leikunum sem lokið hafa keppni. Yfirvofandi var líka matarboð með fleiri skauturum, skíðafólki og íshokkífólki.
Leikarnir eru geysilega stórir og haldnir á svipaðan hátt og Ólympíuleikar. Íþróttafólkið er allt inni á lokuðu svæði og mikil öryggisgæsla alls staðar. Skautahöllin er splunkuný og tekur 7000 manns í sæti. Áhorfendur hafa fyllt stúkurnar á skautakeppnunum og sagði Eva að stemmingin hafi verið rosaleg og mjög góð orka í höllinni. Kvikmyndavélar og ljósmyndarar voru út um allt og áreitið af öllu því sem fyrir augað bar hreint út sagt yfirþyrmandi. Engin leið hafi verið að undirbúa sig fyrir svona en Autumn Classics mótið sem hún fór á í haust hafi gefið smá smjörþef af því sem koma skal en ekkert þó í líkingu við raunveruleikann.
Eva fór út á ísinn í gær, tilbúin í slaginn og var nokkuð vel stemmd þrátt fyrir hve ísinn og hitastigið í höllinni eru svo gerólík öllu sem íslenskir skautarar eiga að venjast. Ísinn er hafður skv. reglum ISU og því „mjúkur“ og vindurinn í andlitið volgur þótt skautarinn sé á fullri ferð. Hún byrjaði prógramið vel en fór af stað með of miklum krafti og gekk erfiðlega að beisla hann sér í hag. Því miður féll hún í stökkunum en flest spinnin gengu vel og skilaði hún hærri PC skorum en næstu 5 keppendur fyrir ofan hana.
Lokahátíðin verður 12. mars og eftir það heldur Eva heim ásamt Gennady Kaskov þjálfara sínum, en þau eru búin að vera í Krasnoyarsk síðan 1. mars. Við tekur hvíld sem verður notuð til að finna tónlist fyrir prógröm næsta tímabils. Aðspurð hvernig tónlist hún fílar best svarar hún að hún sé mjög drifin af „dökkri“ kraftmikilli tónlist með sterkan karakter. Hún ætlar einnig að nota fríið til að skipuleggja sig vel fyrir næsta tímabil en yfirstandandi tímabil hafi verið langt og krefjandi. Líkaminn hafi verið tilbúinn en hugurinn ekki alltaf verið í takti því það sé tvennt ólíkt að keppa á junior stigi og senior stigi og vanda þarf undirbúning á færslu milli þessara keppnisflokka vel.
Vel hefur verið séð um okkar fólk í Rússlandi og tala margir um hve glæsilegt allt hefur verið. Í gær var alþjóðabaráttudagur kvenna og fengu allar konur í íþróttaþorpinu blóm og sælgæti að gjöf frá mótshöldunum sem vissulega var kærkomið eftir langa og stranga æfinga og keppnisdaga í kaldri Síberíu.
Skautasamband Íslands óskar Evu Dögg til hamingju með góða frammistöðu.