#skatingiceland
Heimsmeistaramót Unglinga 2020

Heimsmeistaramót Unglinga 2020

ISU World Junior Figure Skating Championships

Í morgun hélt Aldís Kara Bergsdóttir áleiðis til Tallinn í Eistlandi til að keppa fyrir Íslands hönd á Heimsmeistaramóti Unglinga í listskautum sem fer fram þar í borg dagana 2. til 8. mars n.k. Verður það í fyrsta skiptið sem íslenskur einstaklingsskautari keppir á heimsmeistaramóti í listskautum.

Skautarar geta eingöngu unnið sér inn stig sem gilda til þátttöku á ISU meistaramóti á mótum sem skráð eru á keppnislista ISU og viðurkennd af þeim. Það eru svokölluð Alþjóðleg mót af ISU lista og eru strangar kröfur sem gilda um samsetningu dómarapanels og lágmarksfjölda skráðra keppenda á mótinu. Íslenskir keppendur þurfa því að fara erlendis til að reyna við lágmarksstigin en eina mótið á Íslandi sem gildir til stiga (sé lágmarks fjölda keppenda náð) er Reykjavík International Games.

Ná þarf lágmarks tæknistigum í bæði stutta og frjálsa prógraminu en ekki þarf að gera það á sama mótinu. Lágmarks tæknistig í Junior Ladies eru 23.00 stig í stuttu prógrami og 38.00 stig í frjálsu prógrami.

Aðdragandinn að þátttökunni hefur verið stuttur en Aldís hóf keppnistímabilið með sterkri þátttöku í Junior Grand Prix mótaröðinni er hún fór til Lake Placid sem var haldið 28. til 31. ágúst 2019. Aldís stóð sig afar vel og var ljóst að hún átti góða möguleika á að reyna við tæknistigin á þessu tímabili. Í Lake Placid fékk hún 39.28 stig í stutta prógraminu, þar af 20.88 tæknistig og í því frjálsa 67.15 stig og þar af 33.05 tæknistig. Þetta var fyrsta ISU stórmót Aldísar.

Næst fór hún svo á Halloween Cup í Budapest en það var haldið dagana 17. til 20. október sl.. Þar fékk Aldís 40.70 stig fyrir stutta prógramið og þar af 23.22 tæknistig og náði þar með lágmarkinu í stutta. Frjálsa prógramið gekk einnig vel með 67.91 stigi og tæknistigin 36.30, rétt tæpum tveimur stigum undir lágmarkinu.

Þá var komið að því að reyna á Reykjavik International Games, 28. til 31. janúar s.l. Þar var Aldís í miklu stuði í stutta prógraminu nældi sér í 45.25 stig og þar með 27.19 tæknistig og aftur ISU lágmark. Frjálsa prógramið gekk ekki alveg eins vel og skilaði 68.29 heildarstigum með 33.30 tæknistigum.

Hálfum mánuði síðar, eða 5. til 9. febrúar, gat hún reynt aftur á Norðurlandamótinu sem haldið var í Stavanger í Noregi. Þetta var jafnframt síðasti möguleikinn á að ná lágmarksstigum því skráningarfrestur á Heimsmeistarmótið var 10. febrúar. Stutta prógramslágmarkið var þegar komið, eins og áður sagði, þannig að það skipti ekki máli hvernig það gengi heldur öll áhersla lögð á gott frjálst prógram. Þar sýndi Aldís styrk sinn og gersamlega negldi elementin sín og náði 80.26 stigum fyrir prógramið og heil 43.34 tæknistig og lágmarkið í frjálsa prógraminu í hús.

Aldís Kara Bergsdóttir er því að fara á Heimsmeistarmót Unglinga fyrst íslenskra einstaklingsskautara. Hún mun keppa með stutt prógram föstudaginn 6. mars klukkan 10:45 að staðartíma en Tallinn er tveimur klukkustundum á undan Íslandi. Það kemur í ljós fimmtudaginn 5. mars hvar í rásröðinni hún lendir en þá verður dregið í keppnisröð kl 15:30 á staðartíma.

Með Aldísi í för verður þjálfari hennar, Darja Zajcenko. Einnig fara Svava Hróðný Jónsdóttir, liðsstjóri og varaformaður ÍSS og Guðbjört Erlendsdóttir formaður ÍSS. Hrafnhildur Guðjónsdóttir, móðir Aldísar, verður einnig með í för þannig sendinefnd Íslands á þessu fyrsta Heimsmeistarmóti Unglinga verður einvalalið góðra fulltrúa íslensku skautafjölskyldunnar.

 

Streymt verður beint frá mótinu á Youtube rás Alþjóðaskautasambandsins
Allar aðrar upplýsingar má finna á vefsíðu mótsins: www.jwskate2020.eu/en

Yfirlit ISU yfir mótið er að finna hér

 

Translate »