



Um síðustu helgi tók Ísold Fönn Vilhjálmsdóttir þátt í Dreitannen Cup mótinu í Sviss. Þetta er fyrsta keppni Ísoldar í Junior Ladies og einnig fyrsta mótið hennar eftir erfið meiðsli.
Ísold Fönn gerði sér lítið fyrir og framkvæmdi fyrsta þrefalda Flip (3F) sem íslenskur skautari hefur fullgert í keppni og ekki nóg með það þá var það í samsetningu með tvöföldu Toeloop (2T). Dæmdist þessi samsetning hjá henni á plúsum og skilaði henni 7,13 stigum. Að auki reyndi hún tvo þrefalda Lutz (3Lz) sem dæmdust ófullsnúnir (<).
Alls gerði Ísold sjö þreföld stökk samanlagt í prógrömum sínum á mótinu sem verður að teljast einstakt fyrir íslenskan skautara. Allt þetta skilaði henni silfri á mótinu.
Ísold Fönn flutti til Sviss fyrr á þessu ári og æfir undir leiðsögn Stéphane Lambiel sem sjálfur er tvöfaldur heimsmeistari og silfurverðlaunahafi á Ólympíuleikum. Ísoldu, sem er einungis 14 ára gömul, hefur gengið vel á æfingum í Champéry og hefur tekið miklum framförum eins og sjá má.
Íslenskir skautarar halda áfram að skrifa íslensku skautasöguna og það verður gaman að fylgjast með þessum unga og upprennandi skautara í vetur.