#skatingiceland
Skautari ársins 2024

Skautari ársins 2024

Skautasamband Íslands hefur valið skautara ársins 2024.
Að þessu sinni var reglugerðum breytt og viðurkenningar veittar í öllum þeim greinum sem tilheyra skautum, þar sem stjórn þótti skautarar hafa skarað fram úr á árinu.

Skautakona ársins 2024 er Júlía Sylvía Gunnarsdóttir

Skautasamband Íslands hefur valið Júlíu Sylvíu sem skautakonu ársins 2024. Þetta er í annað sinn sem hún hlýtur viðurkenninguna.

Júlía er 19 ára og æfði með Fjölni undir leiðsög Benjamin Naggiar.
Fyrri hluta ársins keppti Júlía Sylvía í flokki Senior Women, fullorðinsflokki kvenna.
Hún byrjaði árið með keppni á Reykjavík International Games, RIG. Þar varð hún fyrsti íslenski skautarinn til þess að vinna sér inn gullverðlaun á alþjóðlegu móti í fullorðinsflokki. Hún sigraði með 128.28 í heildarstig.

Síðar á önninni keppti hún á Norðurlandamótinu, sem fram fór í Borå í Svíþjóð. Þar hafnaði hún í 9. sæti með 120.98 stig sem eru hæstu stig sem íslenskur skautari hefur fengið á Norðurlandamóti.
Henni var einnig boðið að taka þátt í sýningu í lok mótsins (e. Exhibit) en þangað er skauturum í efstu sætum boðið að taka þátt ásamt útvöldum skauturum sem þykja hafa sýnt góðan árangur sem og hafa hæfileika til þess að sýna skemmtileg prógrömm.
Þar skautaði Júlía við lag Kaleo, Vor í Vaglaskóg.

Á vormánuðum vatt hún kvæði sínu í kross og fór í prufu sem paraskautari. Hún fluttist búferlum til Bergamo á Ítalíu þar sem hún skautar núna sem paraskautari með Manuel Piazza. Þau hafa keppt fyrir Íslands hönd síðan í nóvember og hafa náð markverðum árangri á þessum stutta tíma sem þau hafa skautað saman. Þau eru fyrsta parið sem keppir fyrir Ísland og Júlía Sylvía fyrsti Íslendingurinn sem keppir í paraskautun.

Júlía Sylvía sýnir enn og aftur að hún er afar kappsfull og metnaðarfull íþróttakona sem leggur sig mikið fram í sinni íþrótt.
Árangur hennar sem einstaklingsskautari til þessa var til fyrirmyndar og ákvörðun hennar að ljúka einstaklingsferli sínum til að hefja nýjan sem paraskautari er merki um hversu einbeitt hún er að fara sínar leiðir.

Skautasambandið óskar Júlíu Sylvíu innilega til hamingju með titilinn og óskar henni góðs gengis á nýjum vettvangi innan íþróttarinnar.

Skautapar ársins eru Júlía Sylvía Gunnarsdóttir og Manuel Piazza

Skautasamband Íslands hefur valið Júlíu Sylvíu og Manuel sem skautapar ársins 2024.
Þetta er í fyrsta sinn sem þessi nafnbót er tilnefnd.

Júlía Sylvía (19) og Manuel (25) sem er frá Ortisei, Ítalíu, byrjuðu að skauta saman í júní sl. og eru nú búsett í Bergamo á Ítalíu þar sem þau æfa í Afreksmiðstöð Alþjóðlega skautasambandsins undir handleiðslu Rosanna Murante og Ondrej Hotarek.
Þau æfa einnig að hluta til á Íslandi undir stjórn Benjamin Naggiar, yfirþjálfara Fjölnis, en hann semur einnig prógröm þeirra.

Parið keppti á sínu fyrsta móti 16.-17. nóvember sl. á NRW Trophy í Dortmund í Þýskalandi þar sem þau höfnuðu í 3. sæti með heildareinkunnina 140.50. Árangurinn skilaði þeim þátttökurétti á Evrópumeistaramóti í parakeppni með tæknieinkunnina 75.81. Ásamt því að þau fengu fyrstu verðlaun sem íslenskt par fær á alþjóðlegu móti.

Þann 20.-21. nóvember kepptu þau á PGE Warsaw Cup þar sem þau lentu í 12. sæti með 129.35 stig.

Þau eru nýkrýndir Íslandsmeistarar í Senior Pairs, fyrsta parið sem keppir á Íslandsmeistaramóti.

Þáttaka þeirra markaði merkileg skil í íslenski skautasögu þar sem þau eru fyrsta parið til að keppa fyrir Íslands hönd á erlendri grundu og til að vinna til bronsverðlauna á alþjóðlegu móti og vinna sér inn þáttökurétt á Evrópumeistaramóti í parakeppni á skautum.
Evrópumeistaramótið mun fara fram í Tallinn, Eistlandi, dagana 28. janúar – 2. febrúar 2025.

Skautasambandið óskar Júlíu Sylvíu og Manuel innilega til hamingju með titilinn og óskar henni góðs gengis á keppnistímabilinu.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Translate »