Special Olympics vikan og Icecup Camp

Special Olympics vikan og Icecup Camp

Í nóvember s.l. samþykkti stjórn ÍSS að Special Olympics vika ÍSS verði haldin í maí ár hvert. Vikan verður með ólíku sniði ár hvert en leitast verður við að mæta þörfum Skautadeildar Asparinnar, ÍF og ÍSS hverju sinni. Nú í ár var verkefnið Icecup Camp haldið í Egilshöll.

Icecup Camp fór fram 24. – 26. maí síðastliðinn og var viðburðurinn hluti af fyrstu Special Olympics viku ÍSS. Viðburðurinn var af Skautadeild Aspar með stuðningi Skautasambands Íslands og Special Olympic á Íslandi undir stjórn Evu Hrundar Willatzen og Helgu Olsen.

Viðburðurinn var fjölþættur þar sem áhersla var lögð á að sú fræðsla sem boðið var uppá myndi nýtast Íslandi sem og öðrum þátttökuþjóðum sem best og væri þá lagður grunnur að áframhaldandi verkefnum. Það módel sem nýtt hefur verið hér á Íslandi er ákveðin fyrirmynd er varðar samstarf og samvinnu Special Olymics, ÍSS og samvinnu aðildarfélaga ÍSS og hefur það vakið mikla athygli innan SO samfélagsins sem og annarra landa sem standa að þjálfun einstaklinga með fötlun innan skautaíþróttarinnar.

Megin markmið viðburðarins voru að:
– gefa skauturum tækifæri til þess að skauta í keppnislíku umhverfi
– veita skauturum endurgjöf dómara á núverandi prógrömm
– mennta dómarar í Special Olympics hluta IJS dómarakerfisins
– kynna verkefnið ALLIR MEÐ
– kynna þátttöku og umfang lögreglunnar í Law Enforcement Torch Run
– kynna hvað Ísland hefur verið að gera varðandi þátttöku og inngildingu fatlaðra á skautaíþróttinni
– veita tækifæri til samstarfs milli landa þar sem við getum lært og leitað stuðnings hvert hjá öðru
– að þátttakendur eignist og kynnist nýjum vinum; foreldrar, íþróttamenn, íþróttastjórar, þjálfarar og dómarar
– kynna íslenska menningu og náttúru með nýjum vinum í vináttuferð​

Við erum ákaflega stolt af því hvernig til tókst og teljum við að öllum markmiðum hafi verið náð en þess utan kom Alexander Kausalius, sem starfar sem tæknistuðningur, frá Austurríki til þess að vera okkar fólki innan handar með útfærslu á Special Olympics í IJS tölvukerfinu.

Þátttakendur viðburðarins voru frá 10 þjóðlöndum að Íslandi meðtöldu og voru því 47 skautarar, 14 þjálfarar og 12 dómarar auk fjölda aðstandenda mættir til þess að eiga saman frábæra helgi þar sem íþróttafólkinu okkar var fagnað.

Forsvarsfólk verkefnisins vill skila þökkum fyrir þá samheldni sem er innan skautafjölskyldunnar hér á Íslandi. Öll aðildarfélög tóku þátt í viðburðinum með einum eða öðrum hætti, gáfu vinnu sína sem sjálfboðaliðar, voru beinir þátttakendur með skautara á viðburðinum eða tóku þátt í uppsetningu og undirbúningi með okkur.

Þessi viðburður sýndi vel hversu megnug við erum þegar við komum saman!

Hér má finna myndir frá Icecup Camp.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Translate »