Olympic Development Project fyrir þjálfara
Finnska skautasambandið (FFSA) í samvinnu við Alþjóða skautasambandið (ISU) skipulöggðu fjögurra ára þróunarverkefni fyrir þjálfara, einstaklingsskautara og ísdansara. Verkefnið inniheldur árleg námskeið sem haldin eru í Vierumäki í Finnlandi.
Verkefnið miðast að því að þjálfarar geti tileinkað sér starfsaðferðir er miða að uppeldi afreksefna. Einnig er ætlast til að þessar starfsaðferðir erfist milli kynslóða er skapi stöðugleika í þjálfun og uppbyggingu afreksíþróttafólks og að minni lönd í skautaheiminum geti þróað og þjálfað skautara og þjálfara til stórræða framtíðarinnar.
Fyrsta námskeiðið var haldið 21.-26. maí 2018 síðastliðinn.
Að þessu sinni voru áherslupunktar námskeiðsins innihald og sérhæfing afreksþjálfunar og hvernig þjálfarar eiga að nota þekkingu sína á uppbyggjandi hátt. Auk þess að betrumbæta tæknilega þekkingu íþróttamanna og þjálfara á íþróttinni.
Skautasamband Íslands sendi fjóra þjálfara til þátttöku, George Kenchadze, Guillaume Kermenn, Kristínu Ómarsdóttur og Nadiu Margréti Jamchi.
Með þeim fóru þrír skautarar, Herdís Heiða Jing Guðjohnsen, Marta María Jóhannsdóttir og Viktoría Lind Björnsdóttir.
Með íslenska hópnum tóku þátt þjálfarar og skautarar frá Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Finnlandi, Hollandi, Sviss og Singapore.
Á námskeiðinu var farið þrisvar sinnum á dag á ís, tvisvar á dag í einhverskonar afís æfingar og voru svo 1-3 fyrirlestrar á dag. Á ísnum er áhersla á stökktækni og æfingar fyrir stökk. Þær sem hafa séð um ísæfingarnar eru heimsfrægu þjálfararnir Marina Selitckaia, Mie Hamada, en hún þjálfar t.d. Rika Kihira, juniorsins með þrefalda axelinn, auk Satoko Miyahara sem var í fjórða sæti á Ólympíuleikunum í Kóreu, og Elena Buianova, sem hefur m.a. þjálfað Ólympíumeistarann Adelina Sotnikova.
Einnig voru þau einu sinni á dag með hinni glæsilegu Shae-Lynn Bourne ísdansara. Hún er margfaldur Kanadískur meistari og Heimsmeistari 2003, en hún hefur samið prógrömm fyrir heimsfræga skautara eins og Ashley Wagner og Nathan Chen. Í tímum hjá Shae-Lynn lærðu þau spor og tjáningu með áherslu á hvernig iðkendur eiga að nota allan líkamann á meðan þau skauta.
"Það er yndislegt að vera hér í Vierumäki að vinna með svona reynslumiklum þjálfurum. Aðstaðan er fullkomin fyrir íþróttaiðkun en hér eru tvö skautasvell, afísherbergi, danssalur, fimleikasalur og halupabraut svo eitthvað sé nefnt. Einnig hefur veðrið verið frábært sem skemmir ekki fyrir." Sagði Nadia Margrét Jamchi, einn þjálfaranna í verkefninu, í samtali við ÍSS.
"Á þessu námskeiði er sérstök áhersla lögð á hvað er að vera góður leiðbeinandi og hvernig við getum miðlað þessum upplýsingum áfram og stækkað og bætt íþróttina í öðrum löndum. Þetta er frábært tækifæri fyrir alla þjálfara, hvort sem þeir eru reynslumiklir eða að hefja ferilinn sinn, að auka þekkingu sína og efla tengslanetið sitt. Við erum öll ánægð með námskeiðið. Skipulag og utanumhald til fyrirmyndar."