Lokadagur Vormóts ÍSS 2021 fór fram í dag, sunnudag. Mótið er síðasta mót keppnistímabilsins hjá ÍSS og jafnframt síðasta mótið í Bikarmótaröð ÍSS.
Fyrstu keppnisflokkar dagsins voru Chicks og Cubs. Í þessum keppnisflokkum eru úrslit ekki gerð opinber en skautarar fá þátttökuviðurkenningu. Í dag kepptu 5 hnátur í Chicks og 6 telpur og 1 piltur í Cubs. Allir keppendurnir stóðu sig með prýði og verða frábærir framtíðar skautarar sem gaman verður að fylgjast með.
Að þeim loknum var komið að frjálsa prógramminu í efstu keppnisflokkunum og úrslitaviðureign þeirra á milli.
Advance Novice voru fyrstar. Tanja Rut Guðmundsdóttir, Fjölni, skautaði skemmtilegar æfingar og fékk í heild 36.8g stig fyrir frjálsa prógrammið sem þýðir 58.30 heildarstig eftir mótið og þriðja sætið. Sædís Heba Guðmundsdóttir, SA, gekk þokkalega í dag þó að nokkur mistök hafi komið upp hér og þar. Hún skilaði sínu með stig upp á 44.12. Heildarstig hennar eftir mótið eru því 71. 03 og annað sætið var hennar. Freydís Jóna Jing Bergsveindóttir, SA, skautaði til sigurs með kröftugri frammistöðu í frjálsa prógramminu í dag. Freydís var efst eftir daginn í gær og í dag framkvæmdi hún tvo tvöfalda Axela (2A) og gerði góða tilraun að þreföldu Salchow (3S) og uppskar 51.68 stig og samanlagt 86.87 heildarstig.
Í Junior Ladies voru einungis þrír keppendur sem skautuðu í dag í öfugri úrslitaröð frá deginum í gær. Keppendur í þessum flokki eiga þess kost að komast á Junior Grand Prix (heimsmótaröð unlinga) í haust og er undirbúningur vegna vals á þá mótaröð að hefjast.
Lena Rut Ásgeirsdóttir, Fjölni, skilaði flottu prógrammi með 41.65 stig og heildarstig upp á 69.41. Júlía Sylvía Gunnarsdóttir, Fjölni, sem opnaði með glæsilegum tvöföldum Axel sem því miður var ekki fullsnúinn (2A<) og fallegum Layback spin. Frammistaða hennar í dag skilaði 55.37 stigum og samanlagt 88.25. heildarstigum. Júlía Rós Viðarsdóttir, SA, átti samt daginn og framkvæmdi krefjandi prógram með þreföldum stökkum (3S í samsetningu, 3S< og 3T<<) og flottum tvöföldum Axel (2A). Júlía Rós hefur gengið frábærlega í vetur og verið lang hæst meðal jafningja. Hún fékk í dag 76.59 stig sem skilaði sér í heildarstigum upp á 119.26 og fyrsta sætið í höfn.
Síðasti flokkur dagsins var Senior Ladies en keppniskröfur í þessum flokki eru hæstar af keppnisflokkum Alþjóða skautasambandsins (ISU). Aldís Kara Bergsdóttir, SA, hóf leikinn. Aldís Kara hefur verið atkvæðamikil í skautaíþróttinni og er nýfarin að keppa á fullorðinsstigi en hafði ekki átt góðan dag í skylduæfingunum í gær en kom sterk tilbaka í dag. Aldís Kara raðaði niður elementunum sínum örugg og glæsilega og uppskar 79.25 stig og samanlagt 104.35 heildarstig. Herdís Birna Hjaltalín, Fjölni, er á sínu fyrsta móti í flokknum og átti góðan dag í skylduæfingunum í gær og var efri þeirra tveggja eftir þann dag. Hún opnaði með tvöföldum Axel og góða tilraun við þrefalt Salchow sem voru því miður bæði undirsnúin (2A<< og 3S<<). Herdís Birna framkvæmdi síðan hvert elementið að öðru af ákveðni. Fyrir frjálsa prógrammið fékk hún 66.40 stig sem endaði með 97.75 í heildarstig. Glæslileg frammistaða á sínu fyrsta móti í Senior. Úrslit voru því að Aldís Kara, SA, sigraði og Herdís Birna, Fjölni, varð önnur.
Tímabilið hefur verið að mörgu leiti mjög ólíkt öðrum keppnistímabilum. Fyrir það fyrsta var æfinga- og keppnisbann í gildi í langan tíma á fyrri hluta tímabilsins. ÍSS náði þó að halda Haustmótið sitt áður en bannið tók gildi svo að skautarar náðu að setja taktinn fyrir tímabilið. Íslandsmóti ÍSS þurfti að aflýsa vegna bannsins og voru jólasýningar aðildarfélaganna með öðru sniði en vanalega. Reykjavíkurleikarnir (RIG) fóru fram með öðru sniði en vanalega. En mótið var eingöngu opið íslenskum skauturum. Síðustu ár hefur listskautamót RIG sett sinn sess í alþjóðlegt mótahald og var þess saknað að þessu sinni. Engir áhorfendur voru heldur leyfðir á því móti en stemmningin var góð á meðal keppenda.
Keppnistímabilinu lauk í dag með frábæru Vormóti og afhendingu Bikarmeistaratitilsins.
Öll skautafjölskyldan á Íslandi hefur unnið að því að gera það besta úr stöðunni og vil Skautasambandið þakka öllum fyrir góða vinnu og framlag síðasta keppnisárið.
Skautasamband Íslands óskar öllum keppendum mótsins til hamingju með frábæran árangur og þakkar fyrir krefjandi en spennandi keppnistímabil.
Það verður gaman að fylgjast með skauturunum okkar þróast á næsta keppnistímabili.